Plastverksmiðjan Promens á Dalvík stækkar við sig

Framleiðslugeta plastverksmiðju Promens á Dalvík eykst verulega þegar viðbygging sem nú er í smíðum verður tekin í notkun. Þetta er gert til að bregðast við aukinni eftirspurn, sérstaklega á erlendum mörkuðum.

Hjá Promens á Dalvík eru framleidd einangruð umbúðarker fyrir matvælaiðnað undir merkjum Sæplasts, en auk þess vörubretti og plastvörur fyrir byggingariðnað. Promens starfrækir 65 verksmiðjur um allan heim og verksmiðjan á Dalvík hefur nú sprengt utan af sér húsnæðið og því er verið að stækka vinnslusal hennar um 850 fermetra. Þar verður komið fyrir nýrri framleiðslueiningu en við það aukast afköstin um 60 prósent.

Daði Valdimarsson, framkvæmdastjóri Promens, segir að staðan hafi verið þannig undanfarin misseri að vinna hafi þurft hverja einustu helgi og ekkert mátt drepa á. Það gangi ekki í þessum bransa. Menn verði að geta stoppað til þess að viðhalda tækjunum og fleira. Daði segir að markaðir séu að vaxa og við erum bara bjartsýnir á framtíðina.

Og til að koma viðbyggingunni fyrir á lóðinni varð að vinna land út í sjó og reisa heilmikinn varnargarð til að verjast sjógangi.  En inni er áætlað að hefja framleiðslu seinnipartinn i júli og aukin framleiðslugeta kallar á aukinn mannsskap. Daði segir að þegar stækkunin sé komin í fulla nýtingu þá verði bætt við um 10 störfum. Þá verði starfsmenn á bilinu fimmtíu og fimm til sextíu.

Heimild: Rúv.is