Pistill frá Sjálfstæðisflokkinum í Fjallabyggð

Gróska og fjölbreytni í atvinnulífi

Sjálfstæðismenn vita að öflugt og gott atvinnulíf er forsenda framfara og undirstaða velferðar. Grundvallarstefna Sjálfstæðisflokksins er að frumkvæði einstaklingsins fái notið sín samfara ábyrgð á eigin athöfnum.  Hlutverk sveitarfélagsins í því að gott og fjölbreytt atvinnulíf blómstri er m.a. að grunnþjónusta í Fjallabyggð sé góð og allir innviðir séu sem bestir.  Á þetta hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagt sérstaka áherslu. Meðal annars með mikilli uppbyggingu í skólamálum. Umsvif atvinnulífsins í Fjallabyggð ættu að gefa einhverja vísbendingu um hvernig til hefur tekist.

Aukin umsvif hafna

Frá árinu 2010 hafa umsvif Fjallabyggðahafna aukist jafnt og þétt. Það má m.a. þakka markaðssókn og góðri þjónustu við hafnirnar. Landanir, í tonnum talið,  voru eftirfarandi:

  • 2010       19.432 tonn
  • 2011       20.139 tonn
  • 2012       22.895 tonn
  • 2013       29.075 tonn

Þessi miklu umsvif hafnanna undirstrika þörfina á endurbyggingu Hafnarbryggju, en hún er mjög illa farin. Lengi hefur verið beðið eftir nýjum lögum um sanngjarna kostnaðarskiptingu milli Ríkis og sveitarfélaga á viðhaldi mannvirkja eins og Hafnarbryggju. Málið hefur um nokkurt skeið verið á dagskrá Alþingis en enn er beðið afgreiðslu þess.

Mikil uppbygging í  ferðaþjónustu

Gríðarleg uppbygging í ferðaþjónustu fer nú fram á Siglufirði. Bæjarfélagið hefur lagt sig í líma við að greiða þessum áformum götu, m.a. með samvinnu um skipulagsmál og stofnun sjálfseignastofnunarinnar Leyningsáss. Eitt stærsta hagsmunamál ferðaþjónustunnar er að fjölga ferðamönnum utan háannatíma. Með það að leiðar ljósi setti bærinn öll mannvirki á skíðasvæðinu inn í Leyningsás ses, sem hefur uppi stór áform um uppbyggingu í því skini að efla vetrartúrisma á svæðinu. Allri ferðaþjónustu í Fjallabyggð til hagsbóta.

Iðnaðurinn

Fjölbreyttur framleiðsluiðnaður er í Fjallabyggð s.s. fiskvinnsluvélar sem hlotið hafa viðurkenningu á kröfuhörðum markaði fyrir frábær gæði, neðansjávarbortækni sem byggð er á siglfirskuhugviti, skipasmiðja, vélaverkstæði, reykhús og líftækniverksmiðjur svo eitthvað sé talið. Áform um ýmsar nýjungar hafa verið kynnt s.s. lyfjaverksmiðju, klór-alkaliverksmiðju.

Fjarvinnsla

Ýmiskonar fjarvinnslu hefur vaxið fiskur um hrygg og gegnir nú mikilvægu hlutverki í atvinnulífinu.

MTR

Menntaskólinn á Tröllaskaga hefur vaxið hratt og er mikilvæg menntastofnun og vinnustaður.

Grónu atvinnuvegirnir

Þó hart hafi verið sótt að sjávarútvegi undanfarin ár þá stendur hann samt sem áður með blóma. Togara- og smábátaútgerð gengur vel og svo virðist sem fiskvinnsla sé aftur að ná sér á strik. Helst er að rækjuveiðar- og vinnsla eigi undir högg að sækja.

Heilbrigðisstofnunin er stór vinnustaður og mikilvæg stoð í þeirri grunnþjónustu sem nauðsynleg er svo byggð geti blómstrað.

Gróska

Það er því óhætt að segja að það sé gróska í atvinnulífinu í Fjallabyggð. Atvinnuleysi er með því lægsta sem þekkist á landinu og raunar er það svo að starfsfólk vantar á ýmsum sviðum.

Ljóst er að bæjarfélagið verður að hafa sig allt við til þess að get fylgt eftir þessari miklu grósku. Frárennslismál, hafnarmál og fegrun umhverfis eru meðal brýnna mála sem takast þarf á við á næsta kjörtímabili.

 

Ólafur Helgi Marteinsson bæjarfulltrúi og framkvæmdastjóri

Texti frá: fjallabyggd.xd.is