Skipulag heilbrigðisþjónustu og sjúkraflutninga á svæði Siglufjarðar, Ólafsfjarðar og Dalvíkur hefur verið til umræðu mörg undanfarin ár og ljóst að með tilkomu bættra samgangna, Héðinsfjarðarganga myndu ýmsar forsendur breytast. Með göngunum sameinuðust tvö fyrrnefndu sveitarfélögin og í kjölfarið heilbrigðisstofnanirnar á þessum stöðum. Hugmyndir voru uppi og umræður um þátttöku Dalvíkur í þessum sameiningum en urðu ekki af fyrr en Heilbrigðisstofnun Norðurlands varð til í lok árs 2014 með sameiningu allra heilbrigðisstofnana á Norðurlandi utan SAk.

Margar skýrslur hafa verið unnar um sjúkraflutninga á undanförnum árum. Má þar nefna:

– Sjúkraflutningar á Íslandi, tillögur nefndar heilbrigðisráðherra 31. janúar 2008.

– Skipulag sjúkraflutninga og bráðaþjónustu utan spítala á Norðurlandi, samantekt vinnuhóps 19. janúar 2009, skipaður starfsfólki heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi en þar er m.a. niðurstaða hópsins að koma mætti á fót vettvangsliðakerfi á Ólafsfirði þegar Héðinsfjarðargöng eru komin í gagnið.

– Skýrsla ráðgjafafyrirtækisins Boston Consulting Group um íslenska heilbrigðiskerfið 7. október 2011, þar sem talað er um yfirdrifinn fjölda sjúkrabíla mjög litla nýtingu margra þeirra.

– Skipulag heilbrigðisþjónustu og ráðstöfun fjármuna, ráðgjafahópur velferðarráðherra október 2011 lagði til endurskipulagningu sjúkraflutninga.

– Sameining heilbrigðisstofnana og ýmissar sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu, skýrsla vinnuhóps 5, 30. maí 2012 en þar er talað um að fara yfir skipulag sjúkraflutninga með það í huga að nýta sem best mönnun, búnað og tryggja þjálfun sjúkraflutningamanna.

– Endurskipulagning sjúkraflutninga, skýrsla verkefnishóps velferðarráðuneytis júní 2012. Þar er minnst á skýrslu BCG þar sem bent er á að hluti sjúkrabílaflotans sé illa nýttur og að bæta þurfi menntun sjúkraflutningamanna. Síðan að erfitt sé að halda uppi viðunandi gæðum faglegrar þjónustu og að verkefni séu ekki nægilega mörg til að mannskapur haldist í þjálfun. Tekið er dæmi um Siglufjörð/Ólafsfjörð þar sem skoða mætti einmenningsviðbragð eða vettvangsliða eða bæði.

Viðbragð við slysum og bráðum veikindum þarf að berast sem fyrst og vera eins faglegt og öruggt og kostur er miðað við þær aðstæður sem við búum við. Við skipulag sjúkraflutninga þarf að taka tillit til ýmissa þátta svo sem vegalengda milli staða og samgangna, íbúafjölda, fjölda flutninga og menntunar og þjálfunar sjúkraflutningamanna.

Kröfur um menntun sjúkraflutningamanna hafa farið vaxandi og erfiðara er að viðhalda þjálfun þar sem flutningar eru fáir.

Í árslok 2013 var ákveðið að leggja af sjúkrabíl og sjúkraflutninga á Ólafsfirði en því var síðan frestað af þáverandi heilbrigðisráðherra.

Við skoðun á framtíðarskipulagi sjúkraflutninga í Fjallabyggð fékk framkvæmdastjórn HSN Stefán Þórarinsson fyrrverandi framkvæmdastjóra lækninga á HSA til liðs við sig sem ráðgjafa og ræddi við stjórnendur starfsstöðvar HSN í Fjallabyggð og starfsfólk þess á Siglufirði og Ólafsfirði, sveitarstjórnendur í Fjallabyggð, yfirlækni bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa og fulltrúa velferðarráðuneytisins. Einnig voru lagðar til grundvallar skýrslur þær sem að ofan eru nefndar.

Framkvæmdastjórn HSN hefur komist að þeirri niðurstöðu að leggja af sjúkrabílavakt á Ólafsfirði en að sjúkrabíllinn verði áfram staðsettur þar og væri tiltækur ef aðstæður krefðust. Tryggja þarf viðbragð þar við bráðum uppákomum og er stefnt að því að mynda hóp vettvangsliða í samstarfi við slökkvilið og/eða björgunarsveit til að sinna fyrsta viðbragði áður en sjúkrabíll kæmi frá Siglufirði eða í undantekningartilfellum frá Dalvík.

Texti: hsn.is