Paramót í blaki til styrkar strandblaksvellinum á Sigló

Í dag fór fram paramót í blaki en það er haldið til styrktar standblaksvellinum á Siglufirði. Þetta er sjötta árið í röð sem mótið fer fram og var þátttaka mjög góð. Alls mættu 21 par til leiks og spilaði hvert par sex hrinur upp í 18 stig. Mótið fór þannig fram að þrjú og þrjú pör voru saman í lið og var dregið í lið fyrir hverja hrinu. Góð stemning var í íþróttahúsinu og mikil spenna enda vegleg verðlaun í boði. Spennan var mikil fyrir síðustu hrinuna en að lokum var það Óli B. og Velina sem sigruðu með fullt hús stiga en Andrea og Andri voru tveimur stigum á eftir þeim. Sigurvegararnir fengu glæsileg gjafabréf frá Sigló Hótel en parið í öðru sæti fengu páskaegg og pepsí. Einnig voru dregin út fjölmargir happdrættisvinningar og fengu margir keppendur flotta vinninga með sér heim.
Strandblaksnefnd Blakfélags Fjallabyggðar vill þakka Sigló Hótel, Kjörbúðinni á Ólafsfirði, Olís, Heilsu og Útlit og Efnalöginni fyrir stuðninginn ásamt öllum keppendum fyrir komuna og skemmtilega keppni.

Texti og mynd: Aðsent.