Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórana á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra, lýsir yfir óvissustigi Almannavarna vegna veðurs þar sem spáð er norðanáttar sem gæti fylgt slydda og snjókoma.

Veðrið gengur yfir landið á mismunandi tíma með mismiklum áhrifum og er fólk hvatt til að fylgjast með á vef Veðurstofunnar http://www.vedur.is. Auk þess má fylgjast með færð á vegum á vef Vegagerðarinnar http://www.umferdin.is.

Vegna mikillar úrkomu eru taldar auknar líkur á skriðum og grjóthruni í neðri hluta hlíða næstu tvo sólarhringa á Tröllaskaga og Flateyjarskaga. Til fjalla verður kaldara og úrkoma á að falla sem snjór, og því er skriðuhættan talin bundin við neðri hluta hlíða. Ekki er talin hætta á snjóflóðum.

Veðurspá

Veðurspáin fyrir næstu tvo sólarhringa gerir ráð fyrir köldu veðri með mikilli úrkomu á Tröllaskaga og Flateyjarskaga. Úrkoma á að falla á formi rigningar á láglendi og snjókomu til fjalla. Uppsöfnuð úrkoma nyrst á Tröllaskaga er talin geta orðið í kringum 100 mm á þessum tveimur sólarhringum. Spáin gerir ráð fyrir að snjólína muni vera á bilinu 200–300 metra hæð yfir sjávarmáli í dag, en hækki upp í 500 metra hæð á morgun.