Óþekktur aðili braust inn í hús á Siglufirði
Seint í gærkvöldi bárust tilkynningar til lögreglu í Fjallabyggð um aðila sem hafði farið inn í nokkur hús á Siglufirði. Á tveimur stöðum komu húsráðendur að honum þar sem hann var kominn inn. Hann náði að koma sér út úr húsunum og í burtu. Aðilinn var sagður dökkklæddur, með dökka hettu sem huldi andlit að mestu.
Þrátt fyrir nokkuð ítarlega leit fram eftir nóttu fannst aðilinn ekki. Í ljós kom að hann hafði farið inn í nokkur hús í suðurbænum og tekið verðmæti. Það sem öll húsin áttu sameiginlegt var að þau voru ólæst.
Í ljósi þessa er fólk á Tröllaskaga sérstaklega hvatt til að læsa húsum sínum og vera á varðbergi með eigur sínar. Rannsókn á þessum málum er í gangi.
Lögreglan á Norðurlandi eystra greindi frá þessu.