Öryggi á Tröllaskaga ógnað

Ef slys verður á Tröllaskaga getur skapast neyðarástand vegna fjarveru sjúkraflutningamanna á svæðinu. Engir menn hafa verið þjálfaðir upp sem vettvangsliðar til þess að taka við verkefnum sem áður voru í höndum sjúkraflutningamanna.  Sjúkrabíll er í bænum en enginn með heimild til þess að aka honum.  Ófremdarástand, segir einn af heimamönnum í Ólafsfirði.

Þjóðvegirnir á svæðinu eru skilgreindir meðal hættulegustu og erfiðustu þjóðvegum landsins og oft er svæðið einangrað vegna ófærðar beggja vegna Ólafsfjarðar. Oft er enginn læknir á staðnum og því gæti skapast neyðarástand ef slys ber að höndum.

Sjúkraflutningamönnum á svæðinu hefur öllum verið sagt upp og þeir hætt störfum. Til stóð að þjálfa upp 10-12 manna hóp vettvangsliða, sem tækju við sem fyrsta hjálp á Tröllaskaga. Af þeirri þjálfun hefur ekki orðið enn. Víða annars staðar á landinu er búið að þjálfa vettvangsliða, sem eru ólaunaðir sjálfboðaliðar með stutt námskeið að baki og án viðeigandi trygginga.

Þetta er mikil skerðing á bráðaþjónustu utan spítala á Tröllaskaga“, segir Stefán Pétursson, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. „ Það hafa þegar komið upp alvarleg mál í Ólafsfirði vegna þessa ástands og í augum heimamanna er mannaður sjúkrabíll grunnþjónusta og sjálfsögð mannréttindi“.

Stefán segir ennfremur að ef það sé stefna heilbrigðisyfirvalda að láta vettvangsliða taka við verkefnum, sem áður hafa verið í höndum sjúkraflutningamanna, þurfi að lágmarki að tryggja þeim nauðsynlega fræðslu og undirbúning, auk þess að tryggja mennina og greiða þeim lágmarkslaun fyrir útkall.

Texti: Ályktun frá stjórn Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.