Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra, sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra, sveitarfélögin Húnaþing vestra, Húnabyggð, Skagabyggð, Skagaströnd og Skagafjörður, Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra ásamt ungmennafélögunum USAH, USVH og UMSS hafa ákveðið að vinna saman gegn ofbeldi, öðrum afbrotum og að bættri þjónustu fyrir jaðarsetta hópa undir heitinu Öruggara Norðurland vestra.

Undirrituð var samstarfsyfirlýsing þess efnis í félagsheimilinu á Blönduósi 20. mars sl. og tóku tæplega 1% íbúa á svæðinu þátt í fyrsta samráðsfundi Öruggara Norðurland vestra. Auglýst var eftir áhugasömum íbúum til þátttöku á vinnustofunni. Þátttakendur fengu kynningu á verkefnum einstakra samstarfsaðila og lögðu saman línur um áherslur verkefnisins næstu mánuðina. Þær verða farsæld barna og ungmenna, ofbeldi í nánum samböndum og einstaklingar í viðkvæmri stöðu. Þá var skipað framkvæmdateymi um verkefnið í heild sinni ásamt því að tilnefndir voru verkefnastjórar áhersluverkefna.

Sjá samstarfsyfirlýsingu um Öruggara Norðurland vestra.

Vinnustofan er hluti af afbrotavarnaáætlun embættisins. Afbrotavarnir þurfa að vera skipulagðar, markvissar og byggja á gögnum er varpa ljósi á samsetningu samfélagsins. Þá þurfa afbrotavarnir einnig að vera aðgengilegar og unnar í samstarfi við hagsmunaaðila.

Unnið að svæðisbundnu samráði á landsvísu

Markmið Öruggara Norðurlands vestra er m.a. að auka skilning á ofbeldi og skaðsemi þess, þekkingu á forvörnum gegn ofbeldi og öðrum afbrotum og þeirri þjónustu sem verið er að veita í landshlutanum, ásamt því að efla samstarfsaðila í að takast á við áföll og ofbeldi og bæta samvinnu við úrlausn mála á svæðinu.

Unnið er að að mótun sambærilegra verkefna hjá öðrum lögregluembættum í samræmi við áherslur stjórnvalda á varnir gegn ofbeldi og öðrum afbrotum.

Tölfræði um Norðurland vestra

Greining gagna er undirstaða svæðisbundins samráðs um afbrotavarnir.  Á þeim grunni er hægt að meta t.d. hver er þróun afbrota, heita reiti og mögulegan vanda í uppsiglingu. Á fundinum voru kynntar vísbendingar um að vandi jaðarsettra hópa sé að aukast í umdæminu sé litið til afskipta og aðstoðarbeiðna til lögreglu vegna einstaklinga með geðrænan vanda. Litið hefur verið sérstaklega til lýðheilsuvísa Landlæknis í þeim efnum.  Gögn lögreglu og niðurstöður íslenskra æskulýðsrannsókna og Áfallasögu kvenna benda  til að heimilisofbeldi sé vantilkynnt, bæði hjá lögreglu og félagsmálayfirvöldum.  Í kynningu á starfsemi Aflsins á fundinum kom einnig fram að íbúar á Norðurlandi vestra séu annar stærsti skjólstæðingahópur þess, á eftir Akureyri.