Dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur 6. febrúar ár hvert en hann er merkisdagur í íslenskri leikskólasögu því þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Í tilefni dagsins nú verður í fyrsta skipti veitt viðurkenningin Orðsporið. Hún er veitt þeim sem þótt hafa skarað fram úr og unnið ötullega í þágu leikskóla og/eða leikskólabarna.

Félagar í Félagi leikskólakennara og Félagi stjórnenda leikskóla sendu inn fjölda tilnefninga. Hægt var að tilnefna einstakan leikskólakennara, kennarahóp, verkefni, leikskóla, leikskólastjóra, stefnumótun, skipulag, foreldrasamstarf, sérkennslu, forvarnir, sveitarfélag eða annað sem vel hefur verið gert og er til fyrirmyndar í leikskólastarfi og aðkomu að því.

Valnefnd, skipuð fulltrúum Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, og samstarfsaðilum félaganna um Dag leikskólans, en það eru mennta- og menningar-málaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og Heimili og skóli, fékk það erfiða verkefni að velja þá sem viðurkenninguna hljóta í þetta sinn.

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra afhendir Orðsporið 2013 á Degi leikskólans 6. febrúar nk. í mennta- og menningarmálaráðuneytinu kl. 9:45.

Heimild: ki.is