Nýr bar hefur opnað á Siglufirði við Suðurgötu 10 þar sem Leikfélag Siglufjarðar var áður með sal og aðsetur. Eigandinn er rakarinn vinsæli, Jón Hrólfur Baldursson og Ólöf kona hans. Hrólfur eins og hann er kallaður, hefur gengið lengi með þessa hugmynd og hefur verið að leita að hentugu húsnæði á Siglufirði síðustu árin. Barinn heitir Kveldúlfur Bjór og Bús og verður hann rekinn samhliða rakarastofunni Hrímnir Hár og Skegg sem er til húsa í sömu byggingu. Í fyrstu verður opið á miðvikudögum og fimmtudögum frá 20:00-23:00 og á föstudögum og laugardögum frá 20:00-01:00. Staðurinn tekur 30 manns í sæti en leyfi er fyrir 40-45 manns. Unnið hefur verið að breytingum frá byrjun júnímánaðar á húsnæðinu. Hrólfur festi kaup á léninu kveldulfur.is síðastliðið haust og hefur hafist handa við að útbúa heimasíðu fyrir barinn, en hann hefur einnig gert fésbókarsíðu þar sem hægt er að nálgast upplýsingar og myndir.

Um helgina var fyrsti opnunardagur sem var nokkurskonar reynsluopnun sem var óauglýst nema til nokkra vina þeirra hjóna. Kvöldið heppnaðist afar vel að sögn Hrólfs þar sem þau vildi prófa þetta í rólegheitum. “Stundum er þetta óvænta skemmtilegra en það sem er fyrirfram vitað“. – Segir Hrólfur í samtali við Héðinsfjörð.is.

Hvernig gekk lokaundirbúningurinn fyrir opnunardaginn?

“Ölgerðin Egill Skallagrímsson hefur verið okkur ótrúlega hjálpleg og gerði okkur það kleift að opna um helgina með ótrúlega hraðri og góðri þjónustu og vildu allt fyrir okkur gera til þess að þetta tækist hjá okkur. Einnig var hann Matti hjá Siglfirsku bjórframleiðslunni Segli 67 snöggur að redda okkur og þökkum við þeim mikið og vel fyrir.” – Segir Hrólfur.

Ekki er matsala á staðnum en gestir geta gripið í spilastokka og ýmis önnur spil sem eru á borðunum og hlustað á góða tónlist. Kveldúlfur Bjór og Bús er tilvalinn fyrir þá sem vilja slaka á eftir amstur dagsins og fá sér áfengan eða óáfengan drykk á notalegum stað.  Nafnið Kveldúlfur kemur frá stærstu Síldarverksmiðju í Evrópu sem var byggð árið 1937 á Hjalteyri við Eyjafjörð.