Opið fyrir bókanir með Niceair frá Akureyrarflugvelli
Flugfélagið Niceair hefur opnað fyrir bókanir á heimasíðu sinni niceair.is, en loksins er hægt að bóka flug til Kaupmannahafnar, London og Tenerife beint frá Akureyri.
Flug til Kaupmannahafnar er auglýst frá 18.990 kr. fyrir flug aðra leiðina. Flug til London er auglýst frá 17.500 kr. aðra leiðina og flug til Tenerife er frá 39.500 kr.
Ein 20 kg taska kostar 3750 kr hvora leið en það má taka með sér allt að 10 kg tösku í handfarangur án kostnaðar. Fjórar 20 kg töskur kosta 15.000 kr. aðra leið.
Flutningur á skíðasetti og golfsetti kostar aðeins 4750 kr. og flutningur á reiðhjóli 9750 kr. Ekkert er greitt fyrir flutning á barnabílstól eða barnakerru.
Val á sérstöku sæti kostar frá 1500-5000 kr. eftir staðsetningu. Hægt er að velja ekkert sæti og þá bætist ekki við sætiskostnaður.
Bókunin er frátekin í 60 mínútur þar til þú greiðir fyrir ferðina.
Samkvæmt bókunarvélinni verður flogið á mánudögum og föstudögum til og frá London en fimmtudögum og sunnudögum til og frá Kaupmannahöfn og á miðvikudögum til og frá Tenerife.
Aðeins er hægt að bóka fram í september eins og bókunarvélin er stillt núna.
Miðar eru aldrei endurgreiddir, en ef þeir eru afbókaðir með meira en 7 dögum fyrir brottför, verður hægt að fá inneign fyrir annað flug.
Nú er bara að ná sér í miða hjá Niceair og nýta þessa frábæru þjónustu frá Norðurlandi.