Hver hefði trúað því að lagt yrði upp með flutning á óperu í Ólafsfirði og að flutningurinn yrði af þvílíkum gæðum að magnþrunginn stemmning gripi um sig? – en sú var raunin í gærkvöldi.  Áheyrendur áttu ekki orð yfir frammistöðu listamannanna og lófataki ætlaði aldrei að linna. Framtakið var í höndum Ólafar Sigursveinsdóttur með aðstoð frænda hennar Jóns Þorsteinssonar. Einlæg hrifning bæði áheyrenda og flytjenda ríkti allt kvöldið og ljóst var að hér var brotið blað í sögu Ólafsfjarðar og kvöldið líður seint úr manna minnum. Þó eru Ólafsfirðingar góðu vanir því Berjadagar fer fram árlega og eru þekktir fyrir fágaða og metnaðarfulla dagskrá með fremstu listamönnum sem völ er á.

Í gærkvöldi ætlaði allt um koll að keyra í Menningarhúsinu Tjarnarborg þegar einsöngvarakór, skipaður meðal annars söngvrurum úr Íslensku óperunni og af Norðurlandi, og einsöngvararnir Sigrún Pálmadóttir, Elmar Gilbertsson, Ágúst Ólafsson, Jón Þorsteinsson, Nathalía Druzin Halldórsdóttir og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir fluttu fyrsta þátt La Traviata eftir Giuseppe Verdi undir styrkri stjórn hollenska píanóleikarans David Bollen. Hljómburðurinn í Tjarnarborg var töfrum gæddur, áheyrendur sem og flytjendur skemmtu sér konunglega og þakið ætlaði hreinlega að rifna af húsinu þegar gestir þökkuðu fyrir sig með lófataki, hrópum og köllum. Það er óhætt að segja að kvöldið hafi komið öllum verulega á óvart, því glæsilegur og kraftmikill flutningurinn, sem var rammaður inn af leik spænks-íslenska fiðlusnillingins Páls Palomares, kallaði fram einlæga hrifningu í salnum.

Ólafsfirðingar voru þakklátir, stoltir og stórhrifnir í lok kvölds. Jafnframt sóttu viðburðinn margir gestir á faraldsfæti um helgina, mest brottfluttir Ólafsfirðingar en einnig Íslendingar alls staðar að, frá Akureyri og nærsveitum, og margir að sunnan. Þar með lauk fjögurra daga hátíð sem Ólafsfirðingar sameinuðust um að stofna fyrir tuttugu árum.