Öllum ráðlagt að sjóða neysluvatn í Ólafsfirði

Ekki er vitað annað en að mengun í vatnsveitu Ólafsfjarðar sé bundin við vatnsbólið í Brimnesdal en hugsanlega hefur hluti dreifikerfisins mengast af völdum mengaðs vatns úr vatnsbóli Brimnesdals. Sýni sem tekin voru af Heilbrigðiseftirlitinu fimmtudaginn 12. október greindust menguð. Sýnin voru tekin úr dreifikerfi Brimnesvatnsbóls, þar af tvö sýni sem komin voru inn á Múlalind.

Áfram er talið að svæðið nyrst í bænum sé í lagi þ.m.t hjá fiskvinnslunum í Ólafsfirði. Umhverfis- og tæknideild vinnur að sótthreinsun dreifikerfisins og endurbótum á vatnsbólinu í Brimnesdal en miklar rigningar tefja fyrir viðgerðum.

Flestar E. coli bakteríur eru skaðlitlar, en ef E. coli finnst í neysluvatni, þá bendir það til þess að hættulegar bakteríur geti leynst í vatninu. Öllum íbúum Ólafsfjarðar er því ráðlagt sem varúðarráðstöfun að sjóða vatnið.