Ólafsfirðingurinn séra Lena Rós skrifar frá Noregi

Séra Lena Rós Matthíasdóttir er Ólafsfirðingur og skrifar oft skemmtilegar greinar á Fésbókina sína. Hér er nýr pistill frá henni.

“Nú er ég búin að vera í eitt ár í Noregi og samkvæmt upprunalegu plani ætti ég að vera nýkomin heim aftur, þakklát fyrir tækifærið og reynslunni ríkari. Málið er bara það að ég er ekki komin heim og það er ekki vegna gossins. Ég hef ávallt verið haldin sterkri sjálfsbjargarkennd, er þrautseig og kannski fram úr hófi bjartsýn að eðlisfari. Þá hef ég hingað til verið tilbúinn að þung hlöss í bakpokanum með sterkan vind í fangið og samt verið skapandi og lífsglöð á furðulega áreynslulausan hátt. Þetta geta þau um vitnað sem mig þekkja. Ég elska landið mitt, náttúruna, hafið, fjöllin, víðáttuna, uppsprettulindina, mosann og fjöruna svo eitthvað sé nefnt, já og að fenna í kaf á vetrum. Sumsé týpískur íslendingur.

Samt finn ég mig í þeirri stöðu í dag að horfa á heimalandið utan frá og velta vöngum yfir því hvað raunverulega þurfi til að ég flytji aftur heim. Allt þetta hef ég hér í Noregi, fyrir utan stórfjölskylduna og gömlu góðu vinina, en þau eru bara í 2 1/2 klst. flugi frá mér og flugmiðann á milli Óslóar og Keflavíkur fæ ég á sama verði og flugmiða milli Rvk og Egilsstaða. Til samanburðar er vert að benda á að vinir mínir í Hönefoss sem vilja heimsækja ömmu og afa í Mehamn í norður Noregi verða að sætta sig við rúmlega 4 klst flug frá Gardermoen og þangað upp eftir. Ég er einungis 5 1/2 tíma með biðtímum á báðum flugvöllunum að ferðast frá hurð í Hönefoss til hurðar heima í Hverafold. Það er álíka tími og mig tók að skreppa í heimsóknir akandi frá Rvk norður á heimaslóðir með einu sjoppustoppi á leiðinni.

Á einu ári hef ég skroppið í 5 feitar helgarferðir heim á landið bláa og þar af tvisvar sinnum alla leið norður í land. Ég hef Ísland í rassvasanum þar sem flugsamgöngur milli landanna eru tíðar og fjarlægðin ekkert til að tala um. Og það er ekki lítið gaman að vera túristi með norskar krónur á búðarápi í Reykjavík. Í milli heimferðanna opnar maður bara Skype-ið, Snapp-ið, Fésið eða mundar gamla góða símann. Sumsé, óttinn við að að missa tengslin við þau sem skipta mig máli er gjörsamlega horfinn líkt og dögg fyrir sólu. Ef eitthvað, hafa samskiptin orðið merkingarþrungnari og böndin sterkari. Svo eru þær náttúrulega alger yndi skvísurnar í saumaklúbbnum sem hóa saman í hitting þegar ég er heima á fróni.

Hvað er það þá sem ég missi? Hvað gæti togað svo sterkt í mig að ég væri tilbúin til að yfirgefa það sem ég hef hér í Noregi til að setja mig aftur niður heima? Meira að segja frumburður minn, sem nú er nýfluttur hingað út, hafði á orði við mig síðast í dag að hann blési á staðhæfingar íslendinga um að allt væri miklu dýrara í Noregi. Og þetta sagði hann þrátt fyrir að vera ekki enn búinn að opna fyrsta launaumslagið sitt hér ytra. ,,Sumt er dýrara, sagði hann, en annað ódýrara. Þetta kemur nánast út á það sama”. Ef hann, sem er enn fastur í því að umreikna allt frá norskum yfir í íslenskar krónur, upplifir lítinn sem engan mun á verðlaginu, hvernig verður það þá þegar hann fer að fá launin sín í norskum. Guð einn veit hve mikið ég hlakka til að upplifa son minn bjartsýnni á framtíð sína, hlusta á hann planleggja íbúðarkaup og búa í haginn fyrir konu sína og barn. Nokkuð sem enginn glans var yfir heima, svo vægt sé til orða tekið.

Hvað er það þá sem togað gæti nógu sterkt í mig að koma heim? Ég hef ekki enn fundið konkret svar við spurningunni, en veit þó með vissu hvað kemur í veg fyrir að ég vilji aftur heim. Það er að sjálfsögðu úr sér gengin íslenska krónan, rýjan okkar, sem öllum þykir vænt um og tengja sjálfstæði og stolti, en sem fyrir löngu síðan hætti að þjóna hagsmunum lands og þjóðar (hafi hún þá nokkurn tíma getað það án stuðnings annarra landa). En kannski ég geti andað léttar, þökk sé áhugamannahópi – http://fylkisflokkurinn.is/stefna/ sem vill leggja á það áherslu að:

1. Íslenska krónan verður lögð niður og nothæfur gjaldmiðill tekinn upp.

Kannski það verði norska krónan sem lokkar mig heim á ný… hvur veit? Kannski ég hafi ekki rétta svarið, en almáttugur minn hvað ég elska landið mitt þrátt fyrir allt. Einmitt þess vegna eyði ég miklum tíma í að velta vöngum og skoða alla möguleika okkur til hjálpar. Kannski ég ætti bara að hætta þessu, ég hef það svo fínt hér ytra… en einhvern veginn get ég ekki látið þetta vera. Sjálfsagt hafði hún puttana á púlsinum, Ellen vinkona, þegar hún sagði við mig í kveðjuskyni: ,,Þú ert svo mikill íslendingur Lena, þú kemur fjlótt til baka”. Ég held a.m.k. áfram að yrkja um fósturjörðina og lífið heima… eða eru íslendingar nokkurn tíma alveg farnir að heiman þrátt fyrir allt ?”