Ocean Diamond aftur á Siglufirði

Ocean Diamond kom til Siglufjarðar í morgun með um 190 farþega, skipið sigldi frá Ísafirði í gær og er áætlað að það fari aftur eftir hádegið. Skemmtiferðaskipið mun koma alls í 9 skipti til hafnar á Siglufirði í ár samkvæmt áætlun.  Von er á 42 skipakomum í ár þar sem skemmtiferðaskip af allskonar stærðum munu koma og njóta dagsins á Siglufirði og sækja sér afþreyingu.

Ocean Diamond er með 107 klefa og rúmlega 100 starfsmenn um borð. Skipið siglir hring í kringum Ísland og stoppar á nokkrum stöðum. Skipið siglir í 10 daga í senn í kringum Ísland og er algengt verð hjá þeim um 370.000 kr. á hvern farþega. Ferðin byrjar og endar í Reykjavík, stoppað er meðal annars á Ísafirði, Siglufirði, Grímsey, Akureyri, Húsavík, Seyðisfirði og Vestmannaeyjum.

Síldarminjasafnið er vinsælasta afþreying gestanna, enda hefur það lengsta sögu og verið mest kynnt. Önnur afþreying sem í boði er meðal annars heimsókn á Þjóðlagasetrið, Segull 67, Súkkulaðikaffihús Fríðu, reiðtúrar með Fjallahestum á Sauðanesi og göngur, kajakaferðir og annað slíkt með Top Mountaineering.