Eins og frægt er orðið þá hjólaði Þórir Kr. Þórisson frá Seltjarnarnesi til Siglufjarðar s.l. sumar með miklum glæsibrag og safnaði áheitum fyrir Iðju, dagvist á Siglufirði. Þeim áheitum var ætlað fyrir svokallað skynörvunarherbergi í húsnæði Iðju dagvistar.

Um er að ræða sérútbúna aðstöðu til að þjálfa og örva heyrn, sjón og snertiskynjun. Fötluðu fólki í Fjallabyggð og nágrenni ásamt fötluðum börnum í grunn- og leikskóla Fjallabyggðar mun standa til boða að nýta sér þessa einstöku þjálfunaraðstöðu. Kostnaður við búnaðinn er að mest leyti fjarmagnaður með áheitafé sem safnaðist þegar Þórir Kristinn Þórisson, fyrrverandi bæjarstjóri Fjallabyggðar hjólaði frá Seltjarnarnesi til Siglufjarðar s.l. sumar til styrktar Iðju dagvist fatlaðra.
Kiwanisklúbburinn Skjöldur á Siglufirði hefur boðist til að taka að sér að koma búnaðinum fyrir.
Stefnt er að því að aðstaðan verði komin í gagnið þann 2. febrúar n.k. á 20 ára afmælisdegi Iðjunnar.

Iðjan/dagvist á Siglufirði var fyrst opnuð 2. febrúar 1992 í húsnæði Sjálfsbjargar við Vetrarbraut, það var einn lítill salur , eldhúskrókur, salerni og gott aðgengi. Stoppað var stutt við í Vetrarbrautinni og lá leiðin í Norðurgötu 14, í litla þriggja herbergja íbúð. Á miðju ári 1997 var Suðurgata 2 svo fyrir valinu, ágætis húsnæði en aðgengið ekki gott, og 1. apríl 2011 var flutt í glæsilegt húsnæði við Aðalgötu 7 sem er sérhannað fyrir starfsemina. Stöðugildi Iðjunnar var í byrjun 50% fór fljótlega uppí 75% og 100% með aðstoð frá sambýlinu. Árið 1997 bættist við eitt stöðugildi og enn eitt 2006 og eru því nú 3 100% stöðugildi í dag. Tólf einstaklingar nýta sér þjónustu í dag.