Til stendur að nýta gamla skólahúsið við Hlíðarveg á Siglufirði á næstunni en engin kennsla fer fram þar lengur. Fyrri bæjarstjórn Fjallabyggðar ákvað að selja húsið en það er enn í eigu sveitarfélagsins og er vilji fyrir því að nýta það meðan húsnæðið er ekki selt.

Ósk er nú um að fá salinn á efri hæðinni leigt út fyrir heilsuþjálfun og heilsueflingu fyrir bæjarbúa Fjallabyggðar. Unnið er að drögum á gjaldskrá svo hægt verið að leigja út húsið.

Þá er einnig útlit fyrir að félagsmiðstöðin Neón í Fjallabyggð fái tímabundið aðsetur í gamla grunnskólanum en núverandi húsnæði í Grunnskólanum við Norðurgötu á Siglufirði hentar ekki sérlega vel. Félagsmiðstöðin kæmi þá á fyrstu hæðina í gamla skólanum áður en framtíðarlausn í þeirra húsnæðismálum yrði fundin.