Nýtt fiskvinnslufyrirtæki hefur störf á Dalvik

Nýtt fiskvinnslufyrirtæki er að hefja starfsemi á Dalvík.  Félagið hefur fengið nafnið Marúlfur ehf. Að stofnun þess koma bæði einstaklingar og fyrirtæki í sveitafélaginu, en hluthafar verða fjórir, þar af tveir stærri eigendur. Í tilkynningu kemur fram að unnið hafi verið að stofnun fiskvinnslunnar allt frá því að ljóst var á síðasta ári að Norðurströnd ehf. yrði tekin til gjaldþrotaskipta. Norðurströnd var sérhæft vinnslufyrirtæki í steinbítsafurðum sem keypti hráefni bæði ferskt á fiskmörkuðum innanlands og heilfryst erlendis frá.

Nýja fyrirtækið mun taka upp þráðinn þar sem frá var horfið við gjaldþrot Norðurstrandar og byggja á sérhæfðri reynslu starfsfólksins og þeim viðskiptasamböndum sem til voru og enn eru til staðar. Starfsmannafjöldi nýja félagsins er áætlaður 20 til 25 fyrsta rekstrarárið og gert er ráð fyrir að öll starfsemi félagsins verði að Ránarbraut 10 þar sem Norðurströnd var áður til húsa. Starfsemi verður þó ekki að Hafnarbraut þar sem hluti starfseminnar hafði verið.