Nýtt ferðaþjónustufyrirtæki með sjóferðir frá Ólafsfirði

Fairytale At Sea er nýtt ferðaþjónustufyrirtæki í Ólafsfirði sem sérhæfir sig í stuttum sjóferðum með leiðsögumanni á sæþotum allt árið um kring. Eigendur eru Halldór Guðmundsson og Sölvi Lárusson, en var fyrirtækið stofnað í sumar.  Flestir viðskiptavinir fram til þessa hafa verið Íslendingar og eru heimamenn duglegir að sækja þessar ferðir.  Samkvæmt gjaldskrá fyrirtækisins þá kostar sjóferð 29.900 ef þú ert einn á þotu, annars  19.900 ef tveir eru á þotu. Aðeins er hægt að taka 7 manns í hverja ferð sem tekur um 2-3 klukkutíma. Einnig er hægt að fá styttri ferð sem tekur 1-1,5 klst. og kostar hún 19.900 ef þú ert einn á þotu, annars 12.000 ef tveir eru á þotu.  Allur öryggisbúnaður og klæðnaður er innifalinn í verði.

Lögð er áhersla að njóta útsýnisins við Ólafsfjarðarmúla þar sem bjargið kallar fram hinar ótrúlegustu kynjamyndir og Hvanndalabjarg sem er stærsta standberg frá sjó á landinu, eða 630 metrar í sjó niður.

Mikið er um víkur á þessum slóðum sem skemmtilegt er að staldra við, hlusta á kyrrðina, gleyma stund og stað og njóta eða fljóta.  Á björtum sumarkvöldum er dásamlegt að upplifa miðnætursólina sem lýsir upp hafsflötinn eins og glóandi gull.  Mikið er um fuglalíf á þessum slóðum og einnig er stundum hægt að sjá hvali.

Fairytale At Sea býður einnig upp á sérferðir allt eftir óskum viðskiptavinarins.