Í síðustu viku fór fram vígsla á nýjum þjónustukjarna fyrir fötluð ungmenni að Borgargili 1 í námunda við Giljaskóla á Akureyri. Framkvæmdum við húsið lauk nú í byrjun árs og eru íbúar í óða önn að flytjast þangað. Í húsinu eru sex íbúðir með þjónustukjarna og er hér um að ræða mjög kærkomna viðbót í þjónustu Akureyrarbæjar við fatlað fólk.

Forsagan er sú að í byrjun árs 2012  var skipaður vinnuhópur með fulltrúum frá stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar, félagsmálaráði, fjölskyldudeild, búsetudeild og Fasteignum Akureyrarbæjar sem skyldi skoða þjónustu við fötluð börn og ungmenni á Akureyri með það í huga að byggja íbúðir fyrir þennan hóp. Framkvæmdir við jarðvegsskipti fóru fram í nóvember 2013 og lauk í desember 2013. Framkvæmdir við húsið sjálft hófust í janúar 2014.

Kollgáta teiknaði húsið, Mannvit sá um burðarþol þess, lagnahönnun annaðist Verkfræðistofan Efla og raflagnahönnun var í höndum starfsmanna Raftákns.

Heimild: akureyri.is