Nýr sveitarstjóri ráðinn á Skagaströnd

Sveitarfélagið Skagaströnd hefur ráðið Alexöndru Jóhannesdóttur lögfræðing sem sveitarstjóra. Ráðningin var staðfest á fundi sveitarstjórnar í gær miðvikudaginn 12. september með öllum greiddum atkvæðum. Greint er frá þessu á vef Skagastrandar.

Alexandra lauk grunnprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2012 en meistaraprófi innan sömu greinar og frá sama skóla árið 2016.

Alexandra hefur frá námi starfað m.a. sem lögfræðingur á Fisksistofu ásamt því að hafa yfirumsjón með samningaferlum og sinnt verkefnastjórnun hjá Listahátíð í Reykjavík. Í dag sinnir Alexandra störfum fyrir IP eignarhaldi og er framkvæmdastjóri tveggja félaga undir þeirri samsteypu ásamt því að sitja í stjórnum sjö mismunandi fyrirtækja.

Í störfum sínum hefur Alexandra því komið að fyrirtækjarekstri, sinnt almennum lögfræðistörfum m.a. á sviði ráðgjafar, samningagerðar og gerð viðskiptaáætlana. Jafnframt hefur Alexandra sinnt tengslum við samstarfsaðila og viðskiptavini víðsvegar um heiminn.

Alexandra hefur unnið að ýmsum félagsstörfum og starfaði lengi sem sjálfboðaliði fyrir Rauða Krossinn. Einnig sinnti hún kennslu og umönnun barna og ungmenna hjá Osaberima Educational Center í Ghana í Vestur Afríku árið 2008.

Gert er ráð fyrir að hún hefji störf fyrir Sveitarfélagið Skagaströnd í desember.

Heimild: skagastrond.is