Nýr sóknarprestur á Húsavík

Umsóknarfrestur um starf sóknarpresti til þjónustu í Húsavíkurprestakalli, Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi, rann út á miðnætti þann 6. júlí sl. Þrjár umsóknir bárust um starfið.

Kjörnefnd kaus sr. Sólveigu Höllu Kristjánsdóttur og hefur biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, staðfest ráðningu hennar.

Í samræmi við þær breytingar sem nú hafa orðið á starfsmannamálum þjóðkirkjunnar er sr. Sólveig Halla ráðin ótímabundið í starfið með hefðbundnum uppsagnarfresti.

Sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir er fædd 14. desember 1977 og ólst upp í Lönguhlíð í Hörgárdal, dóttir Kristjáns Hermannssonar og Jórunnar Sigtryggsdóttur sem er látin. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1997 og mag.theol. prófi frá guðfræðideild Háskóla Íslands 2004.

Sr. Sólveig Halla hóf störf hjá Akureyrarkirkju sumarið 2004 og sinnti þar æskulýðsmálum. Hún var svo vígð sem safnaðar- og skólaprestur við Akureyrarkirkju hinn 18. september 2005 og sagði því starfi svo lausu fimm árum síðar. Þá flutti hún ásamt eiginmanni sínum, Sigurði Páli Tryggvasyni, og nýfæddri dóttur, að Þverá í Reykjahverfi Þingeyjarsýslu þar sem þau hófu fjárbúskap.

Sr. Sólveig Halla sinnti kirkjulegu barnastarfi í Húsavíkur- og Grenjaðarstaðarsókn á árunum 2010-2017, með hléum og hafði um hönd kirkjulegar athafnir sem óskað var eftir og vann jafnframt við sálgæslu.