Nýr minnisvarði í Grenivíkurkirkju unninn á Ólafsfirði

Nýr minnisvarði í Grenivíkurkirkjugarði um drukknaða sjómenn var afhjúpaður á
sjómannadagshátíð 2. júní síðastliðinn. Hann var unninn á Ólafsfirði og hann
prýða nokkrar ljóðlínur úr kvæði eftir Kristján skáld frá Djúpalæk.

Gefendur  nýja minnisvarðans eru eftirtaldir: Sigurlaug Sigurðardóttir og fjölskylda,
Jónína Þorsteinsdóttir, sem gefur jafnframt í minningu Þórhalls Einarssonar,
Þórdís Þórhallsdóttir og fjölskylda, Hannes Steingrímsson og fjölskylda,
Laufás-og Grenivíkursókn, kvenfélagið Hlín, Benedikt Sveinsson Ártúni og
Böðvar Gunnarsson Hvammi komu minnisvarðanum fyrir og gáfu vinnu sína og
hjónin Ásta Ísaksdóttir og Gísli Jóhannsson lögðu einnig krafta til.

Ófáir lögðu hönd á plóg, sem er sannarlega þakkarvert. Eldri minnisvarðinn, sem var
eftir Jón Sigurpálsson frá Ísafirði, lauk hlutverki sínu en hann var orðinn
heldur illa farinn eftir að hafa staðið í tvo áratugi. Minnisvarðinn sá var
vígður á sjómannadegi 14. júní árið 1992.