Nýr meirihluti sveitarstjórnar Norðurþings hyggst ráða Dr. Kristján Þór Magnússon sem sveitarstjóra Norðurþings.
Í tilkynningu segir að áfram verði unnið að því að fá fleiri fyrirtæki til að fjárfesta í uppbyggingu á svæðinu. Stefnt er að því að iðnaðarsvæðið á Bakka verði vettvangur meðalstórra og minni iðnfyrirtækja. Fyrirtæki verði valin inn á svæðið m.t.t. til ásættanlegra áhrifa á umhverfi, samfélag og aðra atvinnuvegi. Markmiðið er að orka í Þingeyjarsýslu sé nýtt í héraðinu.
Kristján Þór Magnússon er 35 ára, borinn og barnfæddur Húsvíkingur. Hann stundaði nám við Framhaldsskólann á Húsavík og lauk þaðan stúdentsprófi árið 1999. Eftir fjögurra ára nám í Bandaríkjunum lauk hann grunnnámi (BA) í líffræði við Bates College í Maine árið 2003. Hann lauk meistaraprófi (MPH) í faraldsfræði frá Boston University School of Public Health árið 2006 og doktorsprófi (PhD) í íþrótta- og heilsufræðum frá Háskóla Íslands árið 2011.