Blakfélag Fjallabyggðar hefur ráðið Söru Sagerra Navas sem þjálfara meistaraflokkshópa félagsins fyrir komandi tímabil en hún spilaði með meistaraflokki kvenna á síðasta tímabili. Óskar Þórðarson og Ísabella Ósk Stefánsdóttir eru þjálfarar yngri flokka BF. Oscar Fernandez Celiz, sem var þjálfari BF sl. vetur, hefur verið ráðinn sem starfsmaður blakdeildar KA auk þess sem hann mun þjálfa nokkra yngri flokka félagsins. Frétta- og fræðslusíða ÚÍF greindi fyrst frá þessu á samfélagsmiðlum.
Karlaliðið BF mun spila í 1. deild en þar eru spilaðir 16 leikir heima og að heiman. Kvennaliðin hjá BF spila í 2. og 3. deild en í þeim deildum eru þrjár túrneringar; í nóvember, janúar og mars. Svo er markmiðið að fara með eins mörg lið eins og kostur er á þau helgarmót sem fara fram á Norðurlandi. Kvennaliðið var í 1. deildinni í fyrra en misstu tvo sterka leikmenn fyrir mótið og drógu sig úr mótinu í þeirri deild, en spila í staðinn í 2. deildinni í ár.
Fjöldi ungra nýliða hefur mætt á meistaraflokksæfingar hjá félaginu nú á haustdögum, en bæði karla og kvennalið hafa misst sterka leikmenn. Tveir ungir og efnilegir úr karlaliðinu hafa fært sig til KA og er það talsverð blóðtaka fyrir liðið.
Fyrsti leikur félagsins á tímabilinu verður á Siglufirði fimmtudaginn 30. september er Völsungur/Efling kemur í heimsókn í 1.deild karla.
Fjöldi móta verða einnig fyrir yngri flokka BF og það fyrsta verður Héraðsmót yngri flokka sem fram fer í íþróttahúsinu á Siglufirði laugardaginn 2. október.
Vetrarstarfið hjá Blakfélagi Fjallabyggðar er nú að komast á fullan skrið. Yngri flokkar byrjuðu æfingar um leið og skólastarf hófst í grunnskólanum, 24. ágúst, og þau eldri hófu æfingar í síðustu viku.
Frétta og fræðslusíða ÚÍF greindi fyrst frá þessu á samfélagsmiðlum.