Nýja Pæjumótið í Fjallabyggð

Pæjumótið í Fjallabyggð (Siglufjörður og Ólafsfjörður) fer fram föstudag og laugardag,  5.- 6.ágúst 2016. Mótið er fyrir stúlkur í 5.-7.flokki. Leikið er í fimm manna bolta í 7. og 6.flokki en í sjö manna bolta í 5.flokki.

Leikið verður í „hollum“ þ.e. stutt verður á milli leikja hjá hverju liði og geta þau því mætt, spilað og átt svo það sem eftir er dags til að njóta þess sem í boði er í Fjallabyggð og nágrenni á vegum mótsins.

Mótið fer að öllu leyti fram í Fjallabyggð, fjölmargir vellir til afnota og því boðið upp á toppaðstöðu, má þar sérstaklega nefna stærri og betri velli fyrir 5.flokk og 6.flokk en áður hefur tíðkast á Pæjumóti. Sérstök ástæða verður einnig lögð á að hafa dómgæslu á mótinu metnaðarfulla. Ætlunin er að búa til sannkallaða knattspyrnuveislu og blása lífi í þetta gamalkunna mót.

Með því að spila frá föstudegi og fram á miðjan dag á laugardegi er ætlunin að gefa fjölskyldum og iðkendum sjálfum möguleika á að taka þátt í einni af allra stærstu bæjarhátíðum landsins, þ.e. Fiskideginum mikla á Dalvík sem nær hámarki á laugardagskvöldinu með risa tónleikum þar sem fram koma margir af þekktustu listamönnum Íslands. Allt að 30.000 manns á öllum aldri sækja þessa hátíð heim og nú gefst knattspyrnustelpum á Pæjumóti og fjölskyldum þeirra einnig tækifæri á því. Sennilega er ekki hægt að hugsa sér mikið betri helgi fyrir ungar knattspyrnustelpur og ekki er helgin verri fyrir fjölskyldur þeirra!

Með stolti tilkynnum við líka að mótin gerast sennilega ekki ódýrari Pæjumótið í ár! Kynningarverð á nýju og endurbættu Pæjumóti er ekki nema kr. 8.000 kr á hvern keppenda auk þess sem frítt er fyrir einn þjálfara/fararstjóra með hverju liði sem félög skrá til leiks. Við ætlum ekkert að flækja hlutina, innifalið í þessu gjaldi er nákvæmlega allt, þ.e. afþreying, verðlaun, mótsgjöf, gisting, matur á meðan á móti stendur. Ekkert staðfestingargjald er á þessu móti.

Á mótinu er afar góð matar- og gistiaðstaða í boði fyrir liðin sem koma og utan fótboltans verður mikil og skemmtileg afþreying i boði fyrir keppendur (og fylgifiska) þeirra.

Þægilegt og fjölskylduvæn tjaldstæði eru í boði í Fjallabyggð fyrir gesti Pæjumóts ásamt því að sundlaugarnar verða að sjálfsögðu opnar (frítt fyrir keppendur á Pæjumóti).

Þeim sem hafa áhuga á því að skrá lið sín til leiks eða leita frekari upplýsinga er bent á að senda póst á póstfang Jónsa, umsjónarmann mótsins, paejumot@outlook.com.  Jónsi mun svara öllum þeim spurningum sem kunna að vakna um mótin og halda utan um skráningu á mótin.

Fréttatilkynning frá KF.

KF logo_47