Karlakórinn í Fjallabyggð hefur fengið til liðs við sig tvo nýja stjórnendur. Edda Björk Jónsdóttir er nýr kórstjóri og Guðmann Sveinsson mun sjá um hljómsveit kórsins.

Um Eddu

Edda hefur mikla reynslu af kórastarfi og hefur sungið með fjölda kóra, bæði á Norðurlandi, sem og á höfuðborgarsvæðinu. Þar má sem dæmi nefna Kammerkór Norðurlands, Sölku kvennakór frá Dalvík og Kirkjukór Siglufjarðarkirkju. Auk þess hefur Edda verið meðlimur í og stjórnað minni sönghópum. Edda Björk starfar á Síldarminjasafninu á Siglufirði, en vinnur auk þess sem útsetjari fyrir ýmsa kóra víðs vegar um landið.
Sem barn stundaði Edda Björk nám í þverflautuleik við Tónlistarskóla Kópavogs og Skólahljómsveit Kópavogs. Hún hóf svo nám í klassískum söng við Söngskólann í Reykjavík árið 2007 og lauk burtfararprófi árið 2015. Edda er nú að leggja lokahönd á nám sitt í Listaháskóla Íslands í hljóðfæratónsmíðum.

Um Guðmann

Guðmann er reynslumikill gítarleikari, en hann stundaði nám við Tónlistarskóla F.Í.H í rafgítarleik með áherslu á jazz og rokk.
Guðmann hefur einnig lokið B.Ed gráðu í faggreinakennslu í grunnskóla með áherslu á tónlist frá Háskóla Íslands árið 2016.
Í dag starfar hann sem deildarstjóri og tónlistarkennari við Tónlistarskólann á Tröllaskaga og sinnir tónmenntakennslu á miðstigi við Grunnskóla Fjallabyggðar.
Guðmann hefur einnig starfað sem tónmenntakennari í Dalvíkurbyggð ásamt því að kenna skapandi listgreinar við Menntaskólann á Tröllskaga. Meðfram þessu starfar hann sem tónlistarmaður.
Hann hefur starfað í hinum ýmsum hljómsveitum í gegnum tíðina og má þar nefna hljómsveitirnar Trútón og Cryptic Melody. Einnig hefur hann starfað með Leikfélagi Fjallabyggðar sem hljómsveitarstjóri við uppsetningu á leikverkinu „Þrek og tár”.  En eftir að hann fluttist norður á Siglufjörð hefur hann spilað með mjög fjölbreyttum hópi fólks en upp á síðkastið hefur hann verið mest áberandi sem meðlimur hljómsveitarinnar Ástarpungarnir.
Þetta er mikill fengur fyrir kórinn og mikil lyftistöng fyrir allt kórstarfið,” Sagði Smári Valtýr Sæbjörnsson formaður kórsins.

Kórstarfið hefst eftir hlé á nýju ári – Nýir kórfélagar velkomnir

Kórstarfið hefur legið niðri frá því að Covid-19 faraldurinn hófst.  Um 25 kórfélagar eru nú þegar búnir að staðfesta þátttöku sína á nýju ári, en starfsemin hefst um miðjan janúar 2023,  Nýir kórfélagar eru velkomnir í kórinn og gamlir félagar eru hjartanlega velkomnir.
Þeir sem áhuga hafa að ganga til liðs við karlakórinn, er bent á að hafa samband á netfangið smari@tonaflod.is eða senda skilaboð í gegnum facebook síðu karlakórsins:
Mynd:
Mikael Sigurðsson tók þessa skemmtilegu mynd af nýjum stjórnendum Karlakórsins í Fjallabyggð
Texti og mynd:Aðsend tilkynning.