Ný upplýsingasíða ASÍ fyrir atvinnuleitendur

ASÍ hefur tekið saman upplýsingar sem gagnast atvinnuleitendum og sett á nýja síðu á vef así.is. Síðan er á nokkrum tungumálum og geymir allar upplýsingar sem atvinnuleitendur þurfa.

Eftirfarandi upplýsingar eru á þessum nýja vef:

Hver á rétt á atvinnuleysisbótum?
Upplýsingar um bótarétt, umsóknir og stöðu umsókna má sjá á heimasíðu Vinnumálastofnunar.

Hvenær get ég sótt um atvinnuleysisbætur?
Þú skalt sækja um atvinnuleysisbætur í seinasta lagi þann sama dag og uppsagnarfrestur þinn rennur út. Þú getur sótt um atvinnuleysisbætur einum mánuði áður en þú verður atvinnulaus.

Hvar á ég að sækja um atvinnuleysisbætur?
Þú sækir um atvinnuleysisbætur gegnum „Mínar síður“ á vefsíðu Vinnumálastofnunar. Þú þarft að skrá þig inn með annað hvort Íslykli eða rafrænum skilríkjum til að geta sótt um atvinnuleysisbætur.

Hvað er Íslykill og hvernig sæki ég um?
Íslykill er lykilorð sem er tengt við kennitöluna þína og þú getur notað hann til að skrá þig inn á ýmsum opinberum síðum. Hér má lesa nánari upplýsingar um Íslykil.

Hér getur þú sótt um Íslykil. Þú getur valið um að fá hann sendan á netbanka, með bréfpósti eða í sendiráð.

Hvað eru rafræn skilríki og hvernig sæki ég um?
Rafræn skilríki eru persónuskilríki sem þú notar til að auðkenna þig á netinu. Þú getur notað þau til að undirrita skjöl og fleira. Þú getur fengið rafræn skilríki í bankanum þínum eða gegnum síðu Auðkennis.

Myndband um rafræn skilríki.

Hvað er persónuafsláttur og hvernig nota ég hann?
Allir 16 ára og eldri sem eru búsettir á Íslandi eiga rétt á persónuafslætti. Hann er færanlegur milli hjóna. Nauðsynlegt er að upplýsa vinnuveitanda eða Vinnumálastofnun um hvar þú vilt nýta persónuafsláttinn þinn. Þú getur skoðað nýtingu þína á persónuafslættinum með því að skrá þig inn á skattur.is

Hér má sjá upphæð persónuafsláttarins á þessu ári.

Myndband um rafrænan persónuafslátt.

Myndband Vinnumálastofnunar um hvernig þú breytir nýtingu persónuafsláttar.

Hér getur þú bókað símtal frá starfsmanni Vinnumálastofnunar.