Ný sýning í Alþýðuhúsinu á Siglufirði

Sunnudaginn 13. apríl kl. 15:00 opnar Guðrún Þórisdóttir (Garún) sýninguna “Lykkjuföll og skuggadans” í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

Guðrún var bæjarlistamaður Fjallabyggðar árið 2012 og er búsett í Ólafsfirði. Hún hefur kennt við Grunnskólann Fjallabyggðar ásamt því að sinna eigin listsköpun.

Garún útskrifaðist úr Myndlistaskóla Akureyrar árið 1994 í fagurlistadeild og hefur unnið óslitið að list sinni síðan. Hún hefur haldið fjölmargar sýningar á verkum sínum og tekið þátt í samsýningum bæði hérlendis og erlendis á undanförnum árum. Einnig var hún gestalistamaður í Gmund í Austurríki árið 1996.

Sýningin stendur til 30. apríl og er opin kl. 14:00-17:00 þegar skilti er úti.