Dalvíkingar eru óánægðir með nýja áætlun um strætóferðir á Norðurlandi. Skólafólk á Dalvík sem stundar nám á Akureyri eða á Ólafsfirði getur ekki lengur treyst á almenningssamgöngur til að komast í og úr skóla.

Í dag tók gildi ný áætlun í almenningssamgöngum um á Norðurlandi sem unnin er í samstarfi við Strætó. Í Dalvíkurbyggð er nokkur óánægja með nýju áætlunina, einkum meðal skólafólks en sá hópur hefur til þessa helst nýtt sér almenningssamgöngur á svæðinu. Þeir Dalvíkingar sem stunda nám í Menntaskólanum á Tröllaskaga, á Ólafsfirði, ætla að taka strætó í skólann neyðast þeir til þess að skrópa í fyrsta tíma.

Þeir sem stunda nám á Akureyri ná að mæta í tæka tíð en þegar skóladeginum lýkur upp úr klukkan fjögur er strætó svo til nýfarinn til Dalvíkur og sá næsti leggur ekki af stað fyrr en eftir klukkan sjö að kvöldi. Þeir sem sækja vinnu á Akureyri eru í sama vanda. Hildur Ösp Gylfadóttir, sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs Dalvíkurbyggðar, segir að margir hafi haft samband og kvartað undan þessu. Þjónustan hafi í raun verið betri áður.

Hún segir að sífellt fleiri hafi nýtt sér rútuna og þau hafi áhyggjur af því að krakkarnir fari að keyra meira sjálf og svo geti þetta haft þau áhrif að þau ákveði að flytja í meira mæli til Akureyrar.

Heimild: ruv.is