Ný Siglufjarðargöng verða rannsökuð

Með samþykkt samgönguáætlunar frá árinu 2015-2018 var við lokaafgreiðslu á Alþingi samþykkt að veita fé til rannsókna á nýjum jarðgöngum milli Siglufjarðar og Fljóta. Upphaf málsins er þingsályktunartillaga Kristjáns L. Möllers og tólf annara þingmanna um þetta mál. Við seinni umræðu samgönguáætlunar flutti Kristján L. Möller og Höskuldur Þórhallsson breytingatillögu um að hefja umræddar rannsóknir og velja hvor leiðin væri betri. Við samninga um þinglok var ákveðið að samþykkja hluta af breytingartillögum minnihlutans og að nefndin öll myndi flytja það mál og þar með var komin allsherjar samstaða um samgönguáætlunina. Munu því rannsóknir á nýjum göngum milli Siglufjarðar og Fljóta hefjast á næsta ári og málið þar með komið á áætlun.

Í tillögunni á vef alþingis kemur þetta fram:

Alþingi hefur ályktað að fela innanríkisráðherra að hefja vinnu við nauðsynlegar rannsóknir og frumhönnun á jarð­göngum milli Siglu­fjarðar og Fljóta. Ráðherra skili Alþingi skýrslu með niðurstöðum rannsókna fyrir árslok 2018.
Með stóraukinni umferð um Siglufjörð með tilkomu Héðins­fjarðarganga og sífelldu jarðsigi á Siglu­fjarðarvegi um Almenninga og mjög tíðum aur- og snjóflóðum á ströndinni út frá Siglufirði að Stráka­göngum er fullljóst að framtíðarvegtenging frá Siglufirði í vesturátt verður best tryggð með gerð jarð­ganga milli Siglu­fjarðar og Fljóta. Á myndinni aftast má sjá annars vegar hugsanlega legu 4,7 km langra jarð­ganga frá Hólsdal í Siglufirði yfir í Nautadal í Fljótum og gerð u.þ.b. 5 km langs vegar til að tengjast núverandi vegakerfi og hins vegar 6,1 km löng göng frá Skarðsdal yfir að Hrauni í Fljótum. Með hvorri leið mundi vegurinn frá Ketilási í Fljótum til Siglu­fjarðar styttast um rúmlega helming eða um 15 km.

Eins og fram kemur á myndinni er bent á gerð 4,7 km langra jarð­ganga úr Hólsdal í Siglufirði yfir í Nautadal í Fljótum en auk þess er sýndur annar valkostur. Þess má geta að gerð jarð­ganga á þessu svæði er bæði í skipulagi Fjallabyggðar og sveitarfélagsins Skaga­fjarðar. Einnig er rétt að taka fram að með nýrri vegtengingu í vesturátt frá Siglufirði yrði ekki lengur þörf á að breyta innkeyrslunni til Siglu­fjarðar frá Stráka­göngum þar sem hún liggur um þröngar íbúðagötur í bænum. Ekki er nokkur vafi á því að mati flutningsmanna að ný Siglu­fjarðar­göng mundu styrkja og efla byggð í Fljótum en þar hefur orðið mikil uppbygging að Deplum síðustu ár þar sem erlendir aðilar hafa byggt stórt og myndarlegt lúxushótel. Með jarð­göngunum yrðu um 10 km frá miðbæ Siglu­fjarðar að Ketilási í Fljótum í stað 25 km eins og nú. Svæðin tengdust því enn frekar og betur sem eitt atvinnusvæði. Að lokum má geta þess að með tilkomu Héðins­fjarðarganga hefur skapast ný og mikið notuð varaleið fyrir þjóðveg 1 þegar Öxnadals­heiði lokast og mundu því ný Siglu­fjarðar­göng eins og hér er rætt um auka enn frekar notagildi þeirrar varaleiðar og auka umferðaöryggi fyrir vegfarendur, auk þess að stytta vegalengdina um 15 km.
Lagt er til að fela innanríkisráðherra, sem aftur myndi fela Vegagerðinni framkvæmdina, að hefja rannsóknir og athuganir á bestu leiðinni og leggja mat á kostnaðinn.