Heilbrigðisráðherra hefur sett nýja reglugerð sem kveður á um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi. Eldri reglugerð nr. 467/2015 fellur þar með úr gildi. Nýja reglugerðin felur í sér töluverðar breytingar á umgjörð og stjórnskipulagi sérnáms lækna. Einnig hefur fagleg umgjörð sérnámsins verið endurskoðuð og efld með hliðsjón af þeirri þróun sem orðið hefur á sérnámi í læknisfræði hér á landi á liðnum árum. Kröfur til námsins hafa verið skýrðar nánar og hvernig mat á sérnámi fer fram, framvinda, og námslok. Öflugt sérnám lækna er enda mikilvægur þáttur í mönnun heilbrigðiskerfisins til framtíðar.

Framfaraskref

Ákvörðun um endurskoðun reglugerðar nr. 467/2015 á sér töluverðan aðdraganda og mikil vinna liggur að baki. Starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra sem fjallaði um framhaldsmenntun lækna og framtíðarmönnun læknisstarfa í íslenskri heilbrigðisþjónustu lagði m.a. til endurskoðun reglugerðarinnar í skýrslu til ráðherra 2020. Þar var lögð áhersla á að skilgreina nánar umgjörð og regluverk um framhaldsnám í sérgreinum lækninga. Ráðherra skipaði í framhaldi starfshóp um verkefnið með fulltrúum Félags almennra lækna, Landspítala, Læknafélags Íslands, Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu, Háskóla Íslands, Embætti landlæknis og heilbrigðisráðuneytisins.

Fyrsta verkefni hópsins fólst í að útfæra ákvörðun um að heimila veitingu lækningaleyfis þeim sem lokið hafa embættisprófi í læknisfræði. Áður varð að ljúka kandídatsári á takmörkuðu lækningaleyfi áður en lækningaleyfi fékkst. Í kjölfarið var kandídatsárið endurskoðað og breytt í sérnámsgrunn með reglugerð nr. 411/2021. Í framhaldi af því tók við endurskoðun reglugerðarinnar í heild og er sú reglugerð sem nú hefur verið birt afrakstur þeirrar vinnu.

Helstu breytingar

Í reglugerðinni eru gerðar skýrar kröfur um að sérnám sem er skipulagt hér á landi í læknisfræði skuli fara fram samkvæmt marklýsingu samþykktri af mats- og hæfisnefnd um sérnám lækna. Námið skal fara fram á heilbrigðisstofnunum sem hlotið hafa viðurkenningu sömu nefndar sem kennslustofnanir sérnáms. Í nýrri reglugerð er hlutverk Mats- og hæfisnefndar styrkt og skilgreint nánar. Aðsetur hennar verður í heilbrigðisráðuneytinu.

Gerð er krafa um að starfrækt sé kennsluráð og framvindumatsnefnd í öllum sérgreinum sem kenndar eru hér á landi. Framvindumatsnefnd skal meta árlega hvort hæfni- og færniviðmiðum marklýsingar sé náð. Hlutverk kennsluráðs í tiltekinni sérgrein er meðal annars að staðfesta hvort sérnámslæknir hafi lokið sérnámi skv. marklýsingu með fullnægjandi hætti og gefa út námslokavottorð. Er viðeigandi kennsluráð líka umsagnaraðili um umsóknir um sérfræðileyfi ásamt framhaldsmenntunarráði lækninga.

Framhaldsmenntunarráð lækninga eflt

Framhaldsmenntunarráð lækninga er ráðgefandi samráðsvettvangur sem er leitt af yfirlækni sérnáms á Landspítala. Er ráðið fest í sessi með nýrri reglugerð og hlutverk þess eflt. Heimilt verður að vísa til Framhaldsmenntunarráðs mati kennsluráðs á fyrra sérnámi eða jafngildum störfum sem unnin hafa verið undir handleiðslu og samkvæmt marklýsingu, sem og ákvörðun framvindumatsnefndar um námsframvindu og námslok. Sé ákvörðun framvindumatsnefndar eða kennsluráðs vísað til Framhaldsmenntunarráðs lækninga til endurskoðunar er ráðinu heimilt að skipa ad hoc nefnd þriggja hlutlausra sérfræðilækna til að komast að niðurstöðu sem er endanleg á stjórnsýslustigi.