Ljósmynd: Magnús Rúnar Magnússon

Alþingi hefur samþykkt frumvarp heilbrigðisráðherra sem felur í sér tímabundna undanþágu frá almennri reglu um 70 ára starfslokaaldur ríkisstarfsmanna. Þar með verður heilbrigðisstarfsfólki sem vinnur klínísk störf gert kleift að starfa til 75 ára aldurs hjá opinberum heilbrigðisstofnunum á grundvelli ráðningarsamnings.

Með lögunum er bætt inn í lög um heilbrigðisstarfsmenn nýju ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um að heimilt verður frá 1. janúar 2024 til 31. desember 2028 að ráða heilbrigðisstarfsmann sem náð hefur 70 ára aldri til starfa við heilbrigðisþjónustu sem ríkið veitir. Skilyrði fyrir undanþágunni er að starfið felist í beinum samskiptum við sjúklinga, stoðþjónustu eða rannsóknum í tengslum við þjónustu við sjúklinga, eða handleiðslu yngra heilbrigðisstarfsfólks eða nema. Ráðning samkvæmt þessu ákvæði skal vera tímabundin og vara að jafnaði í eitt ár í senn og aldrei lengur en tvö ár í senn. Heimilt verður að endurnýja tímabundna ráðningu þar til heilbrigðisstarfsmaður hefur náð 75 ára aldri.

Horft er til þess að með sveigjanlegum starfslokum og bættum réttindum þeim tengdum kjósi fleiri að starfa við heilbrigðisþjónustu eftir sjötugt en að óbreyttu. Lagabreytingunni er ætlað að stuðla að bættri mönnun heilbrigðisþjónustunnar sem aukið getur gæði hennar og þar með öryggi sjúklinga.