Ný hugmyndafræði á hjúkrunardeildum HSN

Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Dvalarheimilið Hvammur á Húsavík eru að taka upp nýja hugmyndafræði í starfsemi á hjúkrunar- og sjúkradeildum sínum. Hugmyndafræðin ber heitið þjónandi leiðsögn og var í vor farið í að kenna mentorum aðferðafræðina. Alls sóttu 31 starfsmaður HSN og Hvamms mentornámskeiðin sem lauk með formlegri útskrift þann 2. maí síðastliðinn á Sauðárkróki.

Næsta haust verða svo grunnnámskeið fyrir allt starfsfólk sem starfar á hjúkrunar- og sjúkradeildum HSN og Hvamms í þjónandi leiðsögn og verður veturinn 2018/2019 notaður til innleiðingar m.a. með þemamánuðum þar sem farið verður ofan í kjölinn á aðferðafræðinni.

Þjónandi leiðsögn byggir á grunnhugmyndum um gagnkvæm tengsl. Þungamiðjan snýr að því að tilgangur samskipta okkar er að með samveru verði til jákvæð upplifun sem mótast af kærleika, hlýrri nærveru og þeim gildum sem samfélagið byggir á. Aðferðafræðin byggir á fjórum grunnstoðum sem eru öryggi; að upplifa umhyggju og kærleika; að veita umhyggju og kærleika; þátttaka. Megináhersla er að ná fram gagnkvæmu breytingarferli sem leiðir til félagsskapar og þátttöku í samfélaginu.

Heimild: hsn.is