Ný og vel útbúin heilsugæslustöð fyrir Akureyri og nærsveitir opnar í Sunnuhlíð 12 mánudaginn, 19. febrúar, en öll þjónusta og starfsemi sem hefur verið í heilsugæslustöðinni í Hafnarstræti mun flytjast þangað. Sálfélagsleg þjónusta og geðheilsuteymi verður áfram á Hvannavöllum og heimahjúkrun í Skarðshlíð.
Á stöðinni verður öll almenn læknaþjónusta, hjúkrunarmóttaka, mæðravernd, ungbarnavernd og önnur þjónusta fyrir íbúa á Akureyri og nærsveitarfélög. Nýja heilsugæslan er sérhönnuð utan um starfsemina, en miklar endurbætur hafa verið gerðar á húsnæðinu sem er um 1700 fm að stærð. Þá er aðgengi allt með betra móti en áður var og mun öll starfsemin fara fram á einni hæð.
Vegna flutninga yfir á nýja heilsugæslustöð verður þjónusta heilsugæslunnar í Hafnarstræti takmörkuð dagana 14.-16. febrúar, nema bráðaþjónusta sem áfram verður sinnt að fullu í Hafnarstræti til og með 18. febrúar.