Ríkissjóður hefur gengið frá kaupum á fasteigninni Hótel Gíg á Skútustöðum í Mývatnssveit. Með því er fengin niðurstaða um framtíðaraðstöðu fyrir meginstarfsstöð Vatnajökulsþjóðgarðs á NA landi og starfsaðstöðu annarra stofnana umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í Mývatnssveit, sem eru Umhverfisstofnun, Landgræðslan og Rannsóknastöðin við Mývatn (Ramý).

Undirbúningur þessa hefur staðið um hríð, meðal annars í nánu samstarfi við sveitarfélagið Skútustaðahrepp. Það var niðurstaðan að kaup á eldra húsnæði og endurbætur þess væri hagstæður kostur fyrir ríkissjóð og skapaði fjölmörg tækifæri í Mývatnssveit. Þetta hús, sem áður hýsti Skútustaðaskóla, stendur á einstökum útsýnisstað við Mývatn.

Byggingin hentar  vel sem ein af meginstarfsstöðvum Vatnajökulsþjóðgarðs og Hálendisþjóðgarðs, verði frumvarp um hann að lögum. Gestastofu og sýningum í tengslum við þjóðgarðinn og verndarsvæði Mývatns og Laxár er þannig fundinn varanlegur staður í Mývatnssveit.

Tækifæri til að sameina starfsemi nokkurra stofnanna á einum stað

Í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð er kveðið á um lögbundin áform ríkisins um að halda úti sex meginstarfsstöðvum þjóðgarðsins sem mynda þjónustunet. Þegar hafa meginstarfsstöðvar í Ásbyrgi, Skaftafelli, á Skriðuklaustri og Hornafirði verið settar á laggirnar og bygging meginstarfsstöðvar á Kirkjubæjarklaustri er hafin. Með kaupum á húsnæðinu í Mývatnssveit er því búið að fullnusta uppbyggingu þessa mikilvæga þjónustunets Vatnajökulsþjóðgarðs.

Með kaupunum nú gefst jafnframt tækifæri til að sameina á einum stað starfsemi nokkurra af helstu stofnunum ríkisins á svæðinu og er gert ráð fyrir að Umhverfisstofnun, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn (Ramý) og Landgræðslan hafi starfstöðvar í húsnæðinu, auk Vatnajökulsþjóðgarðs. Þá hefur  Skútustaðahreppur áform um að nýta hluta af húsnæðinu undir atvinnuskapandi nýsköpun og þekkingarsetur. Einnig gefst möguleiki á að útbúa þar starfsaðstöðu fyrir opinber störf án staðsetningar, t.d. á vegum annarra stofnana ríkisins, háskóla og rannsóknaraðila.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið mun á næstu vikum hefja vinnu við skipulagningu á nýtingu húsnæðisins í samvinnu hlutaðeigandi aðila. Þar gerir ráðuneytið ráð fyrir að nýta, til endurbóta á húsnæðinu og til að standa fyrir nauðsynlegum aðlögunum og breytingum, fjármuni sem ráðstafað var til þessa af framlögum til atvinnusköpunar vegna Covid.

Heimild: stjornarrad.is