Norrænu félögin í höfuðborgum Norðurlanda hittast í Þórshöfn í Færeyjum um helgina til að halda fyrsta höfuðborgarmótið í Færeyjum. Fjölbreytt færeysk/íslensk dagskrá verður í boði á mótinu, sem er óvenju vel sótt í þetta skiptið.

Höfuðborgardeildir Norrænu félaganna hittast árlega og til skiptis í höfuðborgum Norðurlanda, en þar nær samstarf grasrótarhreyfinganna hámarki í leik og starfi, þar sem þátttakendum býðst að kynna sér samfélag og menningu hverrar borgar. Nú fá félagar að kynnast höfuðborginni Þórshöfn í fyrsta sinn. Það er gleðiefni, enda er þátttaka frá Norðurlöndum með mesta móti í ár.

Færeyingar hafa áður óskað eftir því að halda höfuðborgarmót, en ekki hefur orðið af því fyrr en nú. Reykjavík átti að halda höfuðborgarmót 2017, en ákvað að framselja rétt sinn til Færeyja, eða öllu heldur halda mótið með Færeyingum í Þórshöfn.

Meginástæðan fyrir því er að nú liggur fyrir beiðni færeyskra stjórnvalda um að verða fullgildir, sjálfstæðir fulltrúar í Norðurlandaráði. Því þótti Reykjavíkurdeild Norræna félagsins upplagt að grasrótin færi fremst í að styðja þá kröfu með því að halda samstarfsmót Færeyja og Íslands í Þórshöfn.

Norræna félagið í Reykjavík telur að Færeyjar sé á margan hátt miðja norræns samstarfs. Færeysk þjóð og saga hennar eigi sterkar  rætur í norrænni sögu og menningu. Það þykja félögunum fullgild rök fyrir sjalfstæðri aðild  að norrænu samstarfi. Færeyjar eru ennfremur landfræðilegur miðpunktur,  þar sem vegir liggja til allra norrænna átta.  Það er því sérstakur heiður fyrir Reykjavíkurdeild Norræna félagsins að fá að taka þátt í höfuðborgarmóti í Þórshöfn, með fjölbreyttri menningardagskrá, færeysk/íslenskum tónleikum, http://www.nlh.fo/#/2253/gudrid-og-snorri og umræðum um umhverfismál og framtíð norræns samstarfs.