Norræna bókasafnsvikan í Fjallabyggð

Sunnudaginn 9. nóvember síðastliðinn hófst Norræna bókasafnavikan. Ein af bókum norrænu bókasafnavikunnar í ár er eftir Tove Jansson og nefnist „Pappan och havet“ Bókasafn Fjallabyggðar mun í þessari viku leggja sérstaka áherslu á norrænar bækur og höfunda. Gaman er að segja frá því að Norræna félagið í Fjallabyggð tekur virkan þátt í þessari viku með okkur.

Fimmtudaginn 13. nóvember verður upplestur fyrir börn bæði í Ólafsfirði og Siglufirði.
Upplesturinn í Ólafsfirði hefst kl. 16. Lovísa María Sigurðardóttir les úr nýútkominni bók sinni „Mía kemur í heiminn“ síðan mun Ásgeir Logi Ásgeirsson lesa Múmínálfabókina „Hvað gerðist þá“ eftir Tove Jansson.

Upplestur á Siglufirði hefst kl. 17 þann 13. nóvember. Þar mun Lovísa María lesa úr bókinni sinni og það er Birgir Egilsson sem les úr bók Tove Jansson en hann hefur sem kunnugt er slegið í gegn í leikritinu „Brúðkaup“ sem Leikfélag Fjallabyggðar hefur sýnt við góðar undirtektir.
Öll börn fá Múmínálfamyndir til að lita og eitthvað létt að maula.

Föstudaginn 14. nóvember eru fimmtíu ár síðan bókasafnið á Siglufirði eignaðist sitt eigið húsnæði að Gránugötu 24. Í tilefni afmælisins verður sett upp sýning á munum og sögu karlakórsins Vísis. Ljúf tónlist þeirra hljómar og aldrei að vita nema afmælissöngurinn verði sunginn.

Við bjóðum íbúum Fjallabyggðar að koma og gleðjast með okkur þennan dag.

Opið verður frá kl. 13.00-18.00
Heitt á könnunni og að sjálfsögðu AFMÆLISTERTA!

Texti: bokasafn.fjallabyggd.is