Fiskvinnslufyrirtækið Norlandia á Ólafsfirði fær áminningu frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra mun veita Fiskvinnslufyrirtækinu Norlandia á Ólafsfirði áminningu sbr. 26. grein laga nr.71/1998.
Fyrirtækinu er boðið að senda inn skrifleg andmæli og jafnframt að mæta á fund nefndarinnar þann 24. apríl nk. til að skýra sín sjónarmið í málinu.
Bæjarráð Fjallabyggðar leggur þunga áherslu á neðanritað í þessu máli.

1.  Allt hráefni til vinnslu skal vera ferskt með TVN – gildi undir 50 og koma til fyrirtækisins ísað í heilum körum eða ílátum með tryggri yfirbreiðslu.
2.  Allt hráefni skal tekið til vinnslu svo fljótt sem auðið er og ekki skal vinna eldra hráefni en fjögurra daga gamalt.
3.  Eðlilegum hreinsibúnaði skal komið fyrir bæði við niðurföll á vinnslusvæði og plani þar sem ætla má að lífrænn úrgangur falli til. Lögð er áhersla á aðbúnaður sé hreinsaður með samfelldum hætti og skal gerð skrá um slíkt sbr. grein 4.2. um eftirlit og skráningu.
4.  Vistun á óhreinum ílátum undir hráefni, úrgang eða annað þess háttar er óheimil hvort sem er innan dyra eða utan.
5.  Aðstaða til að unnt sé að mæla frárennsli frá hreinsibúnaði skal vera fyrir hendi.
6.  Loftræstingu skal þannig stýrt að hún valdi fólki búsettu nálægt starfssvæðinu eða vegfarendum ekki óþægindum vegna lyktar, hávaða eða annarrar mengunar, eftir því sem framast er unnt og þá skal loftflæðisstreymi í þurrkklefa ávallt stillt með þeim hætti að lyktarmengun sé haldið í lágmarki. Lögð er áhersla á að ekki sé loftræst út úr húsinu með því að opna gáttir og að loftskipti fari í gegnum hreinsibúnað hvort sem um er að ræða loft frá þurrkklefum eða úr vinnslusal.  Einnig er lögð áhersla á loftgæði starfsmanna fyrirtækisins.
7.  Eftirlitsaðili skal viðhafa virkt eftirlit með starfseminni og leggja sérstaka áherslu á að koma í veg fyrir kvartanir íbúa vegna lyktarmengunar.
8.  Lögð er áhersla á að vinnslan sé í samræmi og í takt við 6. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og ákvæði reglugerðar nr. 785/1999 um atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun.

Bæjarráð Fjallabyggðar leggur þunga áherslu á að á fundi heilbrigðiseftirlitsins þann 24. apríl verði lagðar fram raunhæfar aðgerðir til að koma í veg fyrir mengun frá starfsemi Norlandia.  Bráðabirgðarleyfið verður ekki endurnýjað eða framlengt eftir 1. júni 2012, nema að úrbætur verði fullnægjandi að mati eftirlitsaðila.