Norðursigling hlaut Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu 2015

Norðursigling hefur hlotið Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu 2015. Ráðherra ferðamála, Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, afhenti verðlaunin á Ferðamálaþingi í Hofi á Akureyri í vikunni. Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1995 og er þetta því 21. árið í röð sem þau eru veitt.

Norðursigling var tilnefnd til verðlaunanna vegna markmiða sinna og árangurs í að efla sjálfbæra ferðaþjónustu, en fyrirtækið hefur náð margvíslegum og eftirtekaverðum árangri í þeim efnum. Sérstaklega er horft til þess að undanfarið hefur fyrirtækið, ásamt teymi íslenskra og norrænna samstarfsaðila, þróað nýtt rafkerfi, þar sem vindorkan er notuð til þess að hlaða rafgeyma skipsins Opal.

Með nýtingu á grænni orku er Norðursigling orðin fremst meðal jafningja í uppbyggingu sjálfbærrar hvalaskoðunar á Íslandi og hefur sannarlega látið verkin tala í þeim efnum og skapað sér sess meðal helstu frumkvöðla í vistvænum siglingum. Verkefninu, sem er einstakt á heimsvísu, er ætlað að nýtast öllum skipaflota fyrirtækisins, en fyrirtækið hefur skapað sér mikla sérstöðu með áherslu sinni á nýtingu og verndun gamalla báta, sem er til hreinnar fyrirmyndar, enda um mikil menningarverðmæti að ræða.

umhverfisverdlaun_15_189988252