Norðlensk matarhátíð á Akureyri

Norðlenska matarhátíðin Local Food Festival fer fram á Akureyri 29. september – 1. október.  Hátíðin samanstendur af Local Food sýningunni sem fram fer í Íþróttahöllinni á Akureyri og er einn stærsti viðburður sinnar tegundar á landinu og Food and Fun Pop Up Akureyri sem er í fyrsta skipti hluti af hátíðinni. Í því felst að íslenskir gestakokkar reiða fram fjögurra rétta matseðil á völdum veitingastöðum á Akureyri og þannig gefst öllu áhugafólki um mat og matarmenningu tækifæri til gæla við bragðlaukana.

Local Food sýninguna sóttu á síðasta ári um 15 þúsund gestir og voru yfir 30 fyrirtæki sem kynntu framleiðslu sína. Sýningin endurspeglar hinn mikla styrk Norðurlands sem stærsta matvælaframleiðslusvæðis landsins og er því kjörinn kynningarvettvangur fyrirtækja og einstaklinga til að vekja athygli á framleiðslu, matarmenningu, veitingastarfsemi, matartengdri ferðaþjónustu og verslun þessu tengd.

DAGSKRÁ
*Kl. 13 -18  
Sýning Iðnaðarsafnsins á Akureyri þar sem sögð er saga matvælaframleiðslu í bænum. Fjöldi áhugaverðra muna verða til sýnis.
*Kl. 13    
Local Food festival kokkanemi ársins 2016. Keppt um besta saltfiskréttinn.
*Kl. 14   
Besta kakan á Akureyri – opin keppni fyrir almenning
*Kl. 15    
Local Food Festival kokkur ársins 2016. Þar keppa kokkar sem hafa sveinspróf í matreiðslu og reiða fram tveggja rétta matseðil og fer matreiðslan fram fyrir framan framan gestir sýningarinnar. Kokkarnir hafa 90 mínútur til umráða og er eldað fyrir 4.
*Kl. 15.20
Frá haga í maga – sýning á vinnsluferli lambakjöts
*Kl. 15.30
Kokteilakeppni – Barþjónar bæjarins keppa um besta kokteilinn
*Kl. 16   
Þjónahlaup – Þjónar bæjarins sýna snerpu sína með fullan bakka af glösum
*Kl. 17.15
Sýningarnefnd velur:  Fallegasta básinn og Frumlegasta básinn og veitt verða Frumkvöðlaverðlaun

Almenningi gefst kostur á að taka þátt í keppninni um Bestu kökuna og fer keppnin þannig fram að þátttakendur baka kökuna heima, koma með hana á sýninguna og skreyta fyrir framan áhorfendur. Bakarar og kokkar dæma svo um hvaða kaka er með besta bragðið og fallegasta útlitið. þar sem bakarar og kokkar dæmia fyrir útlit og bragð.

Aðgangur að Local Food sýningunni er ókeypis og opnunartíminn frá klukkan 13-18 laugardag.