Nikulásarmótið fór fram í Ólafsfirði

Nikulásarmót VÍS og KF fór fram mánudaginn 2. júlí síðastliðinn í flottu veðri og við góðar aðstæður í Ólafsfirði. Mótið átti upphaflega að fara fram í lok ágústmánaðar en var breytt með skömmum fyrirvara. Í ár var mótið fyrir 7. og 8.flokk og mættu 28 lið til leiks frá fjórum félögum á Norðurlandi sem voru KA, Þór, Dalvík og KF. Vonast var eftir aðeins betri þátttöku en skammur fyrirvari hefur ekki hjálpað til ásamt því að mótið var haldið á virkum degi en ekki um helgi eins og verið hefur síðustu árin.

Mótið hófst kl. 15:00 og var síðustu leikjum lokið rétt fyrir 18:30 en spilað var á 7 völlum á Ólafsfjarðarvelli. Leikið var í 2×8 mínútur
Öll liðin í 7.flokki spiluðu fjóra leiki en í 8.flokki spiluðu liðin þrjá leiki ásamt því að fara í vítaspyrnukeppni sem var æsispennandi. Mörg glæsileg tilþrif sáust á mótinu og voru flestir leikir spennandi og vel spilaðir. Engin úrslit voru skráð heldur fengu allir þátttakendur verðlaunapening, mótsgjöf og grillaða hamborgara í mótslok.