Niðurstöður fuglatalningar á Norðausturlandi

Árlegar vetrarfuglatalningar Náttúrufræðistofnunar Íslands fór fram kringum áramótin og var þetta jafnframt í 63. skipti sem þessar talningar eiga sér stað. Nú voru talin 21 svæði á Norðausturlandi. Fjöldi fugla var 18.722 af 48 tegundum (auk ógreindra fugla og blendinga sem voru 30).  Sem fyrr kemur æðarfuglinn sterkastur út, en nú sáust 9.456 slíkir, eða rúm 50% af heildarfjölda fugla sem er nokkuð hefðbundið.

Metfjöldi grágæsa (13), rauðhöfða (59) og skúfanda (14) sáust að þessu sinni. Einnig sást metfjöldi húsanda frá því að farið var að telja á öllum vökum Mývatns í vetrarfuglatalningu 2009. Nú voru þær 1461 en það er stór meirihuti íslenska stofnsins.

Lítið var um svartfugla í vetur. Þrjár branduglur fundust í skóginum við Laugaból í Reykjadal. Stök heiðagæs sást í Kelduhverfi en það er í fyrsta skipti sem hún sést á þessu svæði í vetrarfuglatalningum. Annars voru flækingsfuglar fremur fáir, æðarkóngar sáust í nágrenni Húsavíkur (2) og við Voladalstorfu á Tjörnesi, þrjár hvinendur á Mývatni og tvær í Kelduhverfi og loks nokkrir smáfuglar sem höfðu vetursetu á Húsavík (glóbrystingur, hettusöngvari og glókollur).

talning_2014

 

 

 

 

 

 

Texti og mynd: Náttúrustofa Norðausturlands/ nna.is