Nemendur úr Fjallabyggð hlutu verðlaun frá Minjastofnun Íslands

Í byrjun júlí voru veitt verðlaun í Menningarminjakeppni grunnskólanna sem Minjastofnun Íslands stóð fyrir í tilefni af Menningararfsári Evrópu 2018. Menningarminjakeppnin er hluti af stærri viðburði Evrópuráðsins, European Heritage Makers Week. Sjö verkefni bárust í keppnina frá tveimur skólum, Grunnskólanum á Drangsnesi og Grunnskóla Fjallabyggðar; myndir, ljóð og myndbönd. Í dómnefnd sátu Agnes Stefánsdóttir, verkefnastjóri hjá Minjastofnun Íslands, Helga Maureen Gylfadóttir, verkefnastjóri sýninga hjá Borgarsögusafni Reykjavíkur og Elísa Björg Þorsteinsdóttir, listfræðingur.

Nemendur í 6. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar sendu inn verkefni og hrepptu annað sætið þær Sandra Rós Houe, Þórný Harpa Rósinkranz og Karen Sif Sigurbergsdóttir, fyrir myndbandsverk um Evanger verksmiðjuna á Siglufirði.

Öll verkefnin sem bárust í Menningarminjakeppnina voru send út í European Heritage Makers Week. Alls bárust þangað 82 verkefni frá átta löndum.

Rökstuðningur dómnefndar fyrir 2. sætið:

Höfundar setja fram á lifandi og skemmtilegan hátt upplýsingar um Evanger verksmiðjuna og nýta
miðilinn með fjölbreytilegum hætti. Áhugasamar og skýrar í framsetningu og hvetja fólk til að leita
sér frekari upplýsinga.

Verkefni sem Grunnskóli Fjallabyggðar sendi inn voru:

Saga um Kvíabekkjarkirkju

Evanger verksmiðjan

Álfkonusteinn

Hörmungar í Héðinsfirði