Nemendur Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Norðurlandi

Nemendur Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna voru í náms- og kynnisferð á Norðurlandi vestra dagana 12.- 14. ágúst síðastliðinn. Fararstjórar voru þær Halldóra Traustadóttir og Berglind Orradóttir frá Landgræðsluskólanum. Að þessu sinni voru nemarnir 13 talsins frá sjö löndum í Asíu og Afríku.

Fyrst var farið að Sölvabakka í Refasveit, A-Hún. þar sem Anna Margrét Jónsdóttir, héraðsráðunautur fræddi gestina um verkefnið „Bændur græða landið” og sýndi þeim uppgræðslur á Sölvabakka og sagði frá aðferðum við uppgræðslu lands.
Í Skagafirði tók á móti hópnum Bjarni Maronsson, héraðsfulltrúi Landgræðslunnar á Norðurlandi vestra.  Skoðaðar voru bakkavarnir í Héraðsvötnum við Syðstu-Grund, beitarmál voru rædd og litið á illa farið land vegna ofbeitar hrossa. Að vanda var sögustund við styttu Jóns Ósmanns við vesturós Héraðsvatna. Að loknum hádegisverði að Hólum í Hjaltadal tók Erla Björk Örnólfsdóttir, rektor við hópnum, sagði frá háskólastarfinu og sögu Hólastaðar og leiddi hópinn um staðinn.

Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri, bauð til móttöku í ráðhúsinu á Sauðárkróki og kynnti starfsemi Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
Skoðuð var uppgræðsla á Garðssandi og kynntar þær aðferðir sem best gáfust við stöðvun sandfoks frá sjónum inn eylendið. Nýting afrétta hérlendis var rædd og litið við í Kolbeinsdal. Síðasta daginn var farið um Mælifellsdal til Eyvindarstaðaheiðar og skoðuð framvinda í uppgræðslum Landsvirkjunar á heiðinni og hugað að dreifingu fjár um afréttina.

600_pix_heimasida_IMG_2589_lagad - CopyHeimild: land.is / Landgræðsla Ríkisins.