Nemandi VMA sigraði í söngkeppninni

Elísa Ýrr Erlendsdóttir nemandi úr Verkmenntaskólanum á Akureyri sigraði í Söngkeppni framhaldsskólanna á Norður- og Austurlandi sem haldin var í Menningarhúsinu Hofi síðastliðið laugardagskvöld. Elísa Ýrr flutti lag Amy Winehouse, You know I‘m no good. Í öðru sæti  varð Jón Tumi úr Menntaskólanum á Akureyri og í því þriðja Elvar, Guðjón og María úr Framhaldsskólanum á Laugum.

Sjö skólar tóku þátt í söngkeppninni í Hofi: Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, Menntaskólinn á Akureyri, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Tröllaskaga, Framhaldsskólinn á Laugum, Framhaldsskólinn á Húsavík og Verkmenntaskóli Austurlands. Allir skólarnir að undaskildum Menntaskólanum á Tröllaskaga fluttu tvö atriði og því voru þau í heildina þrettán. Hitt atriðið frá VMA var hið frumsamda lag Friendship sem lagahöfundurinn Anton Líni Hreiðarsson flutti.

Í dómnefnd voru þau Friðrik Ómar Hjörleifsson, Erna Hrönn Ólafsdóttir og Sumarliði Hvanndal.

Heimild og mynd: vma.is