Ida Semey og Bjarni Guðmundsson hafa unnið jafnt og þétt síðustu mánuði að gera upp atvinnuhúsnæðið við Námuveg 8 í Ólafsfirði. Töluverð leynd hefur verið um hvaða starfsemi yrði þarna í framtíðinni, en línur hafa verið að skýrast síðustu vikur þegar ýmsar vísbendingar hafa komið í ljós á samfélagsmiðlum.
Ida hefur núna gefið út að stofnað verði menningarfélag síðar í ágústmánuði og verður opinn fundur fyrir alla.  Hún vill með þessu efla tengsl við nærsamfélagið með áherslu á skapandi menningarlíf, listamannadvöl, gallerý og markað svo eitthvað sé nefnt. Margar góðar hugmyndir eru uppi um notkun hússins í vetur, en vinnuhópur hefur verið að skoða þau mál.
Ida lýsir verkefninu og næstu skrefum svona:
“Megin hugmyndin er að skapa vettvang þar sem íbúar (Fjallabyggðar) geta komið saman til að njóta samverustunda, tekið þátt í menningar- og samfélagsviðburðum og deilt reynslu og þekkingu sinni. Markmið með starfsemi félagsins er að efla félagsleg tengsl í nærsamfélaginu, að styðja við og virkja frumkvæði, að efla skapandi menningarlíf og að leggja áherslu á inngildingu og fjölbreytni.
Húsið er stórt og býður upp ótal marga möguleika sem munu þróast áfram í vetur. Eitt er t.d. að vera með markað, setja upp gallerý, bjóða uppá listamannadvöl og þá er salur á efri hæð hússins.  Einnig er mjög stórt útisvæði sem enn er óplanað hvað gera skal við.
Seinna í ágúst verður auglýstur stofnfundur menningarfélagsins sem verður opinn fyrir alla.  Hlökkum til að sjá sem flesta. 
Við höfum verið að velta fyrir okkar hvað er hægt að gera strax í haust og eru margar góðar hugmyndir komnir á borðið.”
Segir Ida Semey.
Sannarlega spennandi verkefni í gangi í Ólafsfirði og verður gaman að fylgjast með þróun mála og fyrstu verkefnum í húsinu í vetur.