Frá og með hausti 2023 munu Háskólinn á Akureyri og Háskólinn í Reykjavík bjóða upp á nám í iðnaðar- og orkutæknifræði á Norðurlandi. Námið er fullgilt tæknifræðinám við Háskólann í Reykjavík sem tekur mið af þörfum atvinnulífs á Norðurlandi og gerir nemendum kleift að stunda námið í heimabyggð.

Námið er staðarnám við Háskólann á Akureyri og er fjarkennt frá Háskólanum í Reykjavík á sama tíma og fyrirlestrar í tæknifræði fara þar fram. Þá njóta nemendur þeirrar þjónustu sem Háskólinn á Akureyri hefur upp á að bjóða, sækja þangað dæmatíma og fá þar verklega kennslu. Þá eru nemendurnir jafnframt fullgildir nemendur í tæknifræði við Háskólann í Reykjavík.

Nám í tæknifræði á Norðurlandi hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið þar sem atvinnulíf þar hefur kallað eftir fjölbreyttara háskólanámi í tæknigreinum. Fyrirkomulag námsins byggir á reynslu sem fengist hefur á námi í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík sem kennt hefur verið við Háskólann á Akureyri undanfarin ár í samstarfi háskólanna. Með stuðningi úr Samstarfssjóði háskóla og fyrirtækja á Norðurlandi bætist nú við námsbraut í tæknifræði.

Hægt verður að innrita sig í námið á vef Háskólans í Reykjavík frá og með 5. febrúar nk. Almennar upplýsingar um tæknifræðinám og inntökuskilyrði má finna á vef Háskólans í Reykjavík.

Nánari upplýsingar um hina nýju námsbraut í iðnaðar- og orkutæknifræði á Norðurlandi gefa Ólafur Jónsson, verkefnisstjóri við Háskólann á Akureyri og Birta Sif Arnardóttir, verkefnisstjóri í iðn- og tæknifræðideild Háskólans í Reykjavík.