Næsthlýjasti júní mánuður á Akureyri

Á Akureyri var meðalhitinn 12,2 stig í júní 2014, sem er 3,1 stigi ofan meðallagsins 1961 til 1990, en 2,4 stigum ofan meðallags síðustu 10 ára. Þetta er næsthlýjasti júní frá upphafi samfelldra mælinga á Akureyri 1881, meðalhiti í júní 1933 var 12,3 stig.  Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Torfum í Eyjafirði, 12,7 stig. Eitt nýtt landsdægurhámarksmet var sett í mánuðinum. Það var þegar hiti á Torfum í Eyjafirði fór í 22,7 stig þann 13. júní.

Á Akureyri hefur úrkoma aðeins einu sinni áður mælst meiri fyrstu sex mánuði ársins heldur en nú. Það var 1989. Úrkoman hingað til er nú um 50 prósent umfram meðallag og hefur náð 70 prósentum meðalársúrkomu.

Sólskinsstundir það sem af er ári eru um 50 færri á Akureyri en að meðaltali 1961 til 1990.

Heimild: vedur.is