Nokkrar rafmagnstruflanir urðu fyrir helgina í tengivirkinu á Rangárvöllum við Akureyri sem rekja má til vinnu sem þar fór fram við spenni. Við innsetningu spennisins urðu mistök sem mynduðu ljósboga í tengivirkinu. Starfsmaður Landsnets sem var við vinnu nálægt búnaðinum var fluttur á sjúkrahúsið á Akureyri til skoðunar. Meiðsli hans voru þó ekki alvarleg og var hann eina nótt á sjúkrahúsi og var við góða heilsu daginn eftir. Minniháttar skemmdir urðu á búnaði. Rafmagnsleysið varði frá um kl. 11:00 þar til tókst að koma rafmagni á til allra notenda milli kl. 13:15-13:30.

Rafmagnsleysið var víðtækt við Eyjafjörð og nágrenni, þar með talin á Akureyri, Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði.